Sunnudagur, 26. september 2010
Turkana
Ferð til Turkana
Um síðustu helgi var ég staddur í Turkana. Ástæðan var að fara með predikara sem eru á námskeiði hér í Kapenguria út í kirkjurnar að predika. Einnig var að byrja nýtt TEE(Biblíufræðslunámskeið). Við komum fyrst til Lokichar og gistum yfir nóttina. Allir sváfu fyrir utan húsið nema ég, sem valdi að vera inni í neti, var ekki viss um hvort þetta væri malaríusvæði. Hitinn var mikill og ég átti erfitt með svefn. Vaknaði og rölti út til að fá smá andvara. Þegar ég kom aftur inn ákvað ég að lýsa með vasaljósinu aðeins uppí loftið, hafði heyrt einhvern umgang þegar ég var að sofna. Ályktaði að það væri mús, rotta eða eðla. Ég sá þá að í sperrutréinu hékk leðurblaka. Ég skreið undir netið og reyndi að sofna aftur. Daginn eftir fór ég ásamt fimm predikurum til Lokori, það er um það bil 2 klukkustunda akstur og 70 kílómetrar. Við skildum aðra fimm eftir sem áttu að predika daginn eftir í kirkjunum í kring.Við komum til Lokori um hádegið og fengum hádegismat. Við áttum að gista hjá prestinum á staðnum sem heitir Sammy Ataan. Hann varð eftir í Lokichar en konan hans og börn tóku á móti okkur. Það var heitt og við svitnum við það eitt að borða. Ég mundi þá eftir að Sammy hafði talað um að það væri að meðaltali 36-38 stiga hiti. Um kvöldið var samkoma í kirkjunni. Á leiðinni í kirkjuna var ég samferða dóttur Sammy, hún heitir Sharon og er 9 ára. Ég sagði henni að ég væri þreyttur og ætlaði ekki að vera lengi. Hún sannfærði mig um að þau myndu bara syngja tvo söngva og síðan yrði smá hugleiðing. Ég settist frekar aftarlega íkirkjuna sem er lítil og gerð úr leir. Kirkjan var nánast full og fólkið byrjað að syngja. Ég leit upp í loftið sá leðurblöku á sveimi í kirkjunni, hugsaði með mér athyglisvert að hún skuli ekki flýja hávaðann. Ég þekkti ekki söngvana og var þreyttur ákvað því að nota tækifærið og setjast og biðja. Það færðist friður yfir mig og ég naut augnabliksins. Fann fyrir þakklæti og gleði. Ég hlustaði á hraðan bumbusláttinn og klappið í takt. Leit aðeins upp og sá að Sharon var að slá á trommuna. Ákafinn og einbeitinginn skein úr andlitinu. Eldri systir hennar beygði sig niður og tók trommuna og hélt áfram.
Heima hjá Rosabell, konu í kirkjunni í Turkana.Fólk úr ólíkum ættflokkum sameinað. Pokot, Turkana, Masai, Kisii og íslendingur.
Ég leit betur í kringum mig og það rann upp fyrir mér að þetta var einstakt augnablik. Ég sá predikarana sem komu með mér syngja og dansa af ákafa. Þeir voru frá Pokot, Masai og Kisii, sem eru ólíkir ættflokkar hér í Keníu. Turkana fólkið dansaði og söng af sama ákafa, allir þekktu lagið. Fólk frá öðrum kirkjudeildum hér í Lokori, var þarna líka. Þarna voru börn, fullorðnir, konur, karlar, hvítir, svartir, saman syngandi, lofandi og þakkandi Guði. Fólkið var stadd í augnablikinu hér og nú, þakkaði og gladdist. Ég mundi að þegar ég hitti Sammy fyrir nokkrum mánuðum hafði hann sagt mér að Pokot menn hefðu komið og stolið gripum. þar á meðal öllum geitunum hans, í kringum 50 stykkum. Hann missti nánast allan bústofninn. Þeir hefðu einnig drepið 5 Turkana menn í árásinni. Það eru stöðugir bardagar milli þessara ættflokka. Þeir skilgreina sig sem óvini. En hér og nú voru einstaklingar sem voru eitt þrátt fyrir ólíkan uppruna, þeir sýndu hvor öðrum kærleika og vinsemd. Þeir glöddust yfir þessu tækifæri til að vera saman. Ég gerði mér grein fyrir að ég var að upplifa hvað fyrirgefning getur verið sterk, hvað Jesús hefur gert fyrir okkur mennina. Að þrátt fyrir illsku okkar mannana er annar möguleiki, iðrun, sáttargjörð og fyrigefning. Ég lokaði augunum aftur og fann friðinn og gleðina streyma um mig. Ég heyrði sönginn hækka, bumbuna slegna hraðar og dansinn aukast, opnaði aftur augun og sá að rykið af gólfinu var farið að þyrlast um alla kirkjuna. Lokaði auganum aftur og hugsaði er þetta ekki stórkostlegt hér þarf enginn vímuefni til að gleðin fái að streyma fram hindrunarlaust. Samt eru vímuefni stórt vandamál í samfélaginu. Ég var sá eini ásamt nokkrum börnum sem sat, það var allt í lagi ég er hvort sem er svo öðruvísi hér. Vona að ég nái að læra þessa söngva og syngja og dansa svona frjálst. Takk Guð fyrir þetta kvöld.
Tenglar
Mínir tenglar
- Fjellhaug skoler Heimasíða skólans sem við erum í
- Veðrið í Osló...
Bloggvinir
- Anna systir Anna Björg og fjölskylda í Mosó...
- Álfheiðurin mín á Eyjó Hvað get ég sagt ??
- Guðrún mákona Guðrún og Óskar bróðir í Búðardal
- Súsý frænka
- Dandý á Egilsstöðum Mamma Söndru mm...
Athugasemdir
Fylgist reglulega með ykkur.
Sandra Björk biður að heilsa og örugglega Hrafnkell líka en hann er bara ekki heima.
Hafið það gott og bestu kveðjur til ykkar.
Dandý og co.
Dandý (IP-tala skráð) 26.9.2010 kl. 21:14
ótrúlega gaman að lesa allt frá ykkur! Ég sé þetta alltaf svo vel fyrir mér, hlakka til að sjá með eigin augum einn daginn :)
Aldapalda (IP-tala skráð) 26.9.2010 kl. 22:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.