Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008
Þriðjudagur, 23. desember 2008
Gleðileg jól og takk fyrir árið!
Í ár sendi ég ekki jólakort, en sendi kveðju til ykkar allra í útvarpið og í Dagskránna á Egilsstöðum. Vonandi fenguð þið kveðjuna. Við verðum á Aastad Gård meå teindó og bræðrum Fjölnis um jólin og verðum í góðu yfirlæti!
Birti hér að gamni aðventu ljóð sem mér þykir mjög vænt um. Vona að höfundi sé sama...
Aðventuljóð
Í myrkrinu aðventuljósin loga
sem lýsandi bæn um grið.
Þessi veröld er full af skammdegisskuggum
það skortir á gleði og frið.
Það er margt sem vakir í vitund okkar
sem við höfum þráð og misst.
Þá er sálinni styrkur og hjartanu huggun
að hugsa um Jesú Krist.
Við lifum á uppgangs- og umbrotatíð
þar sem allt á að gerast strax.
Og andlegir sjóðir eyðast og glatast
í erli hins rúmhelga dags.
En samt er ein minning sem brennur svo björt
eins og brosandi morgunsól
um hann sem var sendur frá góðum Guði
og gaf okkur þessi jól.
Og jólin nálgast í hverju húsi
og hjarta hvers trúaðs manns.
Það er eins og við fáum andartakshvíld
á afmælisdaginn hans.
En eitt er það þó er í sál minni svíður
sárt eins og þyrnikrans
að mennirnir halda markaðshátíð
í minningu Frelsarans.
Hann boðaði hamingju, frið og frelsi
og fögnuð í hverri sál.
Hann kenndi um guðdóminn, kraftinn og ljósið
og kærleikans tungumál.
Og samt eru jólin hjá sumum haldin
í svartnættismyrkri og kvöl,
í skugga eymdar og ofbeldisverka
við örvænting, skort og böl.
Við lifum í dimmum og hörðum heimi
með hungur, fátækt og neyð
þar sem einn er að farast úr ofáti og drykkju
en annar sveltur um leið
þar sem einn er þjakaður andlegu böli
en annar ber líkamleg sár.
Og samt hefur lausnin frá þjáning og þraut
verið þekkt í tvö þúsund ár.
Og þrátt fyrir mannkynsins mistök og syndir
og myrkvuðu tímabil
og þrátt fyrir allt sen hann þurfti að líða
að þjást hér og finna til
hann bíður samt ennþá með opinn faðm
þar sem alltaf er skjól og hlíf
og biður um meiri mátt til að gefa
mönnunum eilíft líf.
Í myrkrinu aðventuljósin loga
sem lýsandi himnesk rós
Ógnþrungnir skammdegisskuggar víkja
við skínandi kertaljós.
Á jörðinni fölskvast hin andlegu efni
og oft er hér þungbær vist.
Þá er sálinni styrkur og hjartanu huggun
að hugsa um Jesú Krist.
Ragnar Ingi Aðalsteinsson.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 10. desember 2008
Bolkesjø - Jólaverkstæði - læknavaktin
Helgin var frekar annasöm... ekkert nýtt kannski, en samt öðruvísi enn venjulega þar sem við keyrðum til Bolkesjø, 11/2 - 2 tímar á laugardeginum. Þar var okkur boðið í jólaboð. Bergþóra Laila, dóttir Ingu og Ib Wessmann bauð bræðrum sínum, Ægi Ib og Flemming Gauta, með fjölskyldum, foreldrum sínum og börnum hennar og Lars mannsins hennar í jólaboð á hótelinu og okkur með. Vá þetta er doldið flókið, en þið finnið út úr þessu!
Þetta var rosalega gaman. Yndislegt frændfólk! Maturinn góður, landslagið frábært og bara gaman að komast aðeins úr þessu daglega og fá að gista á hóteli.
Á leiðinni uppeftir tókum við eftir að Davíð var kominn með augnsýkingu. Þegar leið á kvöldið fór hún að versna og eftir matinn var hún orðin það slæm og hann kominn með hita, þannig að við töltum upp á herbergi svona um tíu ellefu leitið... Horfðum á BEEEE movie og höfðum það kósý!
Því miður kom Daníel ekki með, bæði þurfti hann að vinna á laugardaginn og svo hélt hann að það væri kannski ekkert gaman að fara í svona fjölskyldudæmi... En hann sá eftir því þegar hann heyrði ferðasöguna greyjið!
Frá Bolkesjø brunuðum við yfir til Ski... 2 tíma akstur og þar var Kristín Steingrímsdóttir, "gömul" vinkona mömmu búin að gera klárt fyrir piparkökubakstur og jólaverkstæði... Dóttir hennar, Ragnhild Terese ogsonur hennar Theodor og kærasti RT Espen voru þarna líka í heimsókn og svo kom Kjell, maður Kristínar.... Þetta var líka alveg frábært, nema augnsýking Davíðs var orðin frekar mikil og skapið farið að versna.
Svo til að kóróna þetta brenndi Salómon sig á piparköku gluggunum. Við höfðum sett mola í gluggagötin til að fá alminnilega glugga og hann hélt í þetta um leið og hliðin kom úr ofninum og brenndi sig rosalega á vísifingri og á milli þumalfingurs og vísifingurs. Vá! ég hef sjaldan heyrt önnur eins óhljóð.. alla leiðina heim grét hann og öskraði af sársauka. Hann sofnaði með hendina í vatnsbaði og við fórum á læknavaktina með Davíð til að fá augndropa og brunasmyrsl furir Saló. Við fengum það og þeir fóru í háttinn með sitt hvora tegundina af smyrslum. Annar í augunum og hinn á hendinni!
Jæja.. ég er að fara í viðtal í skólanum... hafið það gott kæru vinir! Guð blessi ykkur og ég vona að nærvera Heilags Anda sé svo sterk í kringum ykkur að þið finnið fyrir henni. Hann er í okkur sem trúum og gefur okkur það sem við þörfnumst. Hann leiðbeinir okkur og huggar okkur.Hann styrkir trú okkar.
Kærar kveðjur frá Fanney
Bloggar | Breytt 12.12.2008 kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 5. desember 2008
Jólatónleikar Hjálpræðishersins...
Við Fjölnir fengum miða á jólatónleika Hjálpræðishersins og þeir voru í gær. Okkur fannst rosalega gaman og upplifun fyrir okkur að fara á svona flotta tónleika.
Svo voru jólatónleikar hér á Fjellhaug í gær... ég var með hugleiðingu. Skelli henni inn hérna þegar ég er búin að þíða hana yfir á íslensku...
Læt þessa bæn hér inn í dag og bið Guð um að blessa ykkur!
Herra, gefðu mér augu þín
svo ég sjái þegar aðrir líða
Herra, gefðu mér augu þín
svo ég geti séð sársauka í brosi
Herra, gefðu mér eyru þín
svo ég heyri hljóðan hjartagrát
Herra, gefðu mér eyru þín
svo ég geti heyrt þögul hjálparóp
Herra, gefðu mér munn þinn
er mælir orð sem gleðja
orð sem uppörva
orð sem styrkja
orð sem gefa von
Herra, gefðu mér hendur þínar
sem ætíð opnast öllum mót
sem styðja á niðurbeygða öxl
sem strjúka burt tár
sem gefa og taka á móti
Herra, gefðu mér af hjarta þínu
svo ég geti fundið til með þeim sem líða
svo ég geti glaðst með þeim glöðu
svo ég geti elskað, - elskað eins og þú.
Sölvi H. Hopland
Bloggar | Breytt 12.12.2008 kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tenglar
Mínir tenglar
- Fjellhaug skoler Heimasíða skólans sem við erum í
- Veðrið í Osló...
Bloggvinir
- Anna systir Anna Björg og fjölskylda í Mosó...
- Álfheiðurin mín á Eyjó Hvað get ég sagt ??
- Guðrún mákona Guðrún og Óskar bróðir í Búðardal
- Súsý frænka
- Dandý á Egilsstöðum Mamma Söndru mm...