Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010
Mánudagur, 8. nóvember 2010
Marakwet
Við fjölskyldan fórum til Marakwet síðastliðinn föstudag. Við höfðum aldrei farið þangað áður. Kirkjan á þessum stað er ekki í Pokot, en samt ekki langt frá héraðsmörkunum milli Pokot og Marakwet. Árið 1998 var stríð á milli þessara ættflokka, Marakwet- og Pokotmanna. Það var mikið um nautgripaþjófnaði. Okkur var sagt að einn daginn hefðu 20 manns látið lífið og í heildina á þessu tímabili um 50 manns. Fólk flúði heimili sín og dvaldi annars staðar í mismunandi langan tíma og þjófnaður úr auðum húsum var algengt. Presturinn í þessum söfnuði Paul Loyomo, var einn af fjórum Pokotmönnum sem ákváðu að leita friðar við nágrannamenn sína í Marakwet. Fjórir frá hvorum ættflokk reyndu að hittast en fyrstu tveir fundirnir voru ekki friðsamlegir, meðal annars var skotið á þá frá hæðunum í kring. En í þriðja skiptið náðist friður. Það var ákveðið að staðsetja kirkjuna þarna, þar sem friðurinn náðist. Í dag er friður á þessi svæði og er það mikil blessun fyrir fólkið á þessum slóðum.
Það var tekið vel á móti okkur og fólk hópaðist að bílnum þegar við stoppuðum við kirkjuna. Við fengum svo að vita seinna að það væru tíu mánuðir síðan bíll hefði keyrt á þessum slóðum. Það hefur rignt óvenjulega mikið hér og vegurinn þess vegna ófær. Hefðum við vitað þetta áður er ekki víst að við hefðum lagt í þessa ferð. Það er vegna þess að það þarf ekki nema nokkrar mínútur með rigningu á þessa vegi til að hann sé algjörlega ófær.
Okkur voru sýnd húsakynni okkar og það er alltaf jafn spennandi að sjá hvernig við eigum að búa. Hingað til höfum við verið í steyptum húsum og moldarkofum. Við höfum einnig alltaf fengið alvöru rúm til að sofa í og erum við afskaplega þakklát fyrir það. Dýnurnar eru mismunandi og oft finnst mér eins og við sofum bara á þverspýtunum, en þá hugga ég mig við að við fáum allavega rúm! Fólkið sem á húsið sem við bjuggum í fór úr sínum rúmum fyrir okkur og svaf annarsstaðar. Þetta fólk gaf land fyrir kirkjuna og virðist vera mjög gott fólk. Maðurinn heitir Charles og konan hans Pauline og eiga þau 10 börn. Sex stráka og fjórar stelpur. Fyrst sögðu þau að þau ættu níu börn, þá töldu þau ekki með eina stelpu sem er átta ára og hreyfihömluð. Hún heyrir og sýnir tilfinningar, en getur ekki setið, né staðið.
Strákarnir okkar komust fljótt inn í krakkahópinn sem var á staðnum. Þau umkringdu Salómon og Davíð og fylgdust með hverri hreyfingu. Um leið og við komum fór ég með strákana í göngutúr, niður að á og átti það eftir að vera aðal leikvettvangur þeirra. Þar veiddu þeir froska, léku sér í því litla vatni sem var og skemmtu sér. Þeir eru nú orðnir frekar vanir því að hafa mörg augu og fingur á sér þegar við komum á svona nýja staði. Þessir krakkar hafa kannski ekki séð hvít börn áður og eru bæði hrædd og mjög áköf í senn. Það er vonandi að Salómon og Davíð fari að geta tjáð sig annað hvort á swahili- eða pokotmáli. Það mun breyta miklu varðandi þessar ferðir okkar.
Á föstudagskvöldið sýndum við fyrst teiknimynd um miskunnsama samverjann. Þetta er saga sem margir þekkja og börnin hafa gaman af að sjá teiknimyndir. Svo tók söngur við og síðast myndin um líf Jesú. Það var full kirkja og fólkið ánægt.
Um nóttina var mér svo kalt að ég var viss um að ég yrði veik. Þegar ég vaknaði í eitt af eflaust 20 skiptum fannst mér ég vera komin til Íslands. Morguninn eftir átti svo kennslan að byrja klukkan níu. Við erum nú aðeins farin að læra á afrísku klukkuna og áætluðum þá að við mundum byrja um ellefu. Reyndin var sú að viðbyrjuðum um hálf tólf J. Presturinn, Paul Loyomo vildi að við myndum kenna um fjölskyldulífið. Við töluðum um hjónabandið, fyrst Fjölnir um hvað Orð Guðs segir um hjónabandið og svo ég um mátt fyrirgefningarinnar og hjónabandið almennt. Fólkið var áhugasamt, en annað mál hvort við komum þessu frá okkur á einhvern hátt sem þau skildu. Og hvort það þá var sami boðskapur og við töldum okkur vera að segja. Hér er fjölkvæni algengt og þess vegna er erfitt fyrir okkur, sem þekkjum ekki fjölkvæni af eigin reynslu, að vita hvað þetta fólk erað glíma við í hjónaböndunum. En þegar ég tala við konurnar eftir þessa fræðslu þá virðast sömu vandamálin vera til staðar.
Eftir fræðsluna okkar fór Fjölnir með strákana, Gísla, Kornelius (predikara frá Kaibibich) og Paul Loyomo, prestinum á nágranna bæ til að kaupa kartöflur. Konan á þeim bæ bauð þeim mat og endaði svo á að gefa okkur tvo sekki af kartöflum og vorlauk. Hún tók ekki í mál að taka við borgun, þeir væru að koma til hennar í fyrsta sinn og þá gerði maður ekki svoleiðis. Mikil var gestrisnin hennar og hjá öllum sem við hittum.
En á meðan hann fór í þessa ferð, var ég með kvennahóp. Ég hef verið að kynna bækur sem Jostein Holmedahl, norskur kristniboði, sendi öllum söfnuðunum. Bækurnar byggjast á því að lesa vers úr Biblíunni og svo hugleiðingu um textann. Þær eru á ensku, þannig að einhver í konuhópnum verður að kunna ensku. Í Marakwet voru þær nokkrar og gekk þessari sem þýddi textann mjög vel. Textinn var úr 1. Mósebók,kafla 8, vers 9. En dúfan gat hvergi tyllt sér og hvarf aftur til hans í örkina því að vatn var enn yfir jörðinni allri. Hann rétti út hönd sína og tók dúfuna til sín í örkina.Hugleiðingin gengur út á að við sem kristin þurfum að snúa aftur til arkarinnar, Jesú, til að fá það sem við þurfum til að vinna það verk sem okkur er úthlutað. Jesús er hinn eini sanni frelsari.
Þegar fræðslan mín var búin, fór ég að spyrja þessar konur út í þeirra líf. Spurði meðal annars hvernig samband kvennanna í fjölkvænis hjónaböndum almennt væri. Hvort það væri mikið um afbrýðissemi? Fyrst fékk ég svarið nei, en svo sögðu ungu konurnar, að það væri víst afbrýðissemi. Þegar kona númer eitt og tvö væru kannski með frekar stór og fín hús, tiltölulega stærra land og fleiri nautgripi hefðu þær kannski ekki mikið að vera afbrýðisamar út af, en kona númer þrjú,fjögur og jafnvel fimm eða sex hefðu oft bara lítil hús, lítið land og fáa nautgripi. Þær væru þess vegna afbrýðisamar út í fyrstu konurnar. Eins ef maðurinn dvelur meir hjá einni konu en annarri myndast afbrýðisemi. Ein konan spurði mig hvað hún gæti gert til að fá manninn sinn til að koma í kirkjuna. Stundum segðist hann ætla að koma, en þegar sunnudagurinn kom var hann farinn að heiman fyrir morgun chaiið. Svo þegar hann kom heim um eftirmiðdaginn sagði hann að hann hefði haft öðrum málum að sinna. Ég spurði hana hvort hún gæti þá sagt honum hvað presturinn hefði verið að predika um. Hugsanlega lesið lestrana fyrir hann og þannig gæti Orð Guðs fengið að starfa sjálft.
Svo smátt saman fóru konurnar að deila og tala við hvor aðra og túlkurinn sagði mér frá. Ein konan sagði að gott væri ef þær konur sem væru kristnar og ættu sama manninn mundu geta sýnt honum kærleika Guðs í verki heima. Ef til dæmis ein konan ætti í erfiðleikum með að greiða skólagjöld barna sinna, gæti hún farið til hinnar og beðið hana um eina belju. Svo færu þær saman til mannsins og sögðu honum frá þessari niðurstöðu þeirra að hin konan vildi gefa henni belju til að borga skólagjöld hennar barns. Maðurinn mundi verða mjög hissa á þessum systra kærleikog óeigingirni. Smátt og smátt mundi hann sjá hvernig kærleikur Guðs væri og vilja fara í kirkju. Önnur kona sagði að ef maðurinn vildi ekki fara í kirkju, en konur hans færu. Gætu þær báðar sagt honum frá predikuninni og lestrum dagsins. Þannig að þegar maðurinn heimsótti eina, fengi hann að heyra og eins þegar hann heimsótti hina. Svoleiðis gætu þær breitt út Orð Guðs til mannsins þeirra. Það er gaman að fá að skyggnast aðeins inn í heim þessara kvenna og fá að heyra hvernig þessar konur vilja svo innilega að maðurinn þeirra komist til trúar á Jesú Krist.
Nikolas Loyara byrjaði TEE námskeið, sem er Biblíufræðsla. Þetta er venjulega hópur fólks úr kirkjunni sem eru leiðtogar á einhvern hátt. Vonin er að þegar fólkið er búið að fara í gengum þessa fræðslu hefur það fengið góðan Biblíugrunn til að byggja á.
Um kvöldið sýndum við svo teiknimynd um Jósef, söngva, og síðan mynd sem heitir The Pilgrim og aðra sem heitir Heimurinn án kristinna manna. Á milli teiknimyndarinnar og söngvana sýndum við allar myndirnar sem við höfðum tekið af fólkinu á staðnum frá því við komum. Viðbrögðin voru stórkostleg. Við höfðum aldrei heyrt annan eins hlátur þegar andlitin birtust á tjaldinu. Það var greinilegt að þau voru ekki vön að sjá myndir af sjálfum sér né nágrönnunum. Við fórum öll að skelli hlæja, bara af viðbrögð þeirra J.
Sunnudagsmorguninn vöknuðum við frekar seint, eða um hálf níu. Við fengum chai og spjölluðum við mennina sem voru í heimsókn hjá Charles. Meðal annarrs bróður hans sem á landið við hliðina á Charles. Hann bauð okkur að flytja til Marakwet. Hann mundi gefa okkur land og þeir mundu byggja hús . Ég spurði hvortég fengi ekki naut líka og hann hélt nú að ég fengi það. Þá bættist presturinní samtalið og sagðist geta gefið okkur land. Ég sagði að ég væri komin með það envantaði naut. Hann ætlaði þá að láta það í tjé. Ég var farin að halda að þeirværu ekkert að djóka og fór að róa í land, en þeir stóðu fastir á þessu. Þá vargott að geta notað menningu þeirra og sagt þeim að þeir yrðu að tala við Fjöllaþví hann réði öllu svona J. Við skildum með þau orð að við værum áréttum stað í Kapenguria, en að við mundum sofa á þessari uppástungu þeirra.Svo var bara að fara að pakka. Það var gert í flýti, enda erum við að verða svosjóuð í því. Eftir pökkunina var fundur með öldungunum kirkjunnar og þar báruþeir fram beiðni eftir beiðni um margt sem söfnuðurinn vanhagaði. Loyarasvaraði þeim vel og við Fjölnir þökkuðum kærlega fyrir tímann sem við höfðum fengiðmeð þeim og gestrisnina. Svo hlupum við í heimsókn til eins predikara semheitir Christofer. Hann vildi endilega að við mundum koma og taka myndir affjölskyldunni hans. Eftir að stelpurnar voru komnar í fínu fötin og ljóst varað strákarnir tveir, sem þau eiga, komu ekki, þar sem þeir voru uppteknir að fygjastmeð Salómoni og Davíð, tókum við nokkrar myndir og hlupum svo í Guðsþjónustuna,sem var byrjuð. Þegar við komum þangað var brátt komið að því að við mundumkynna okkur. Við gerðum það og svo komu aðrir gestir. Þar á meðal kór úrsjöunda dags aðventista kirkju í Marakwet. Þau sungu fallega og svo predikaðipresturinn hálfvegis þegar hann átti að kynna sig. Hann var stoppaður af ogbeðinn um að flýta sér þar sem tíminn væri að verða naumur. Rétt á eftir fórLoyara og aðrir menn út og hreyfing kom á fólkið. Ég fór út til að sjá hvað umværi að vera. Þá kom í ljós að það væri að byrja að rigna og við þyrftum aðflýta okkur af stað. Konurnar reyndu að stoppa okkur og gefa okkur mat áður envið færum, en til allra lukku þáðum við það ekki. Rigningin kom á eftir okkurog við rétt náðum að komast framhjá versta kaflanum. Þannig að endirinn áheimsókninni varð hálf endaslepptur. En ferðin var góð og við endurnærð andlegaen þreytt líkamlega þegar við komum heim. Strákarnir voru mjög sáttir við aðkoma heim. Salómon fór strax út með Kibet, vini sínum. Þessa dagana fer allurþeirra leiktími í að safna termítum og maurum til að láta þá berjast. Davíð fórinn í herbergi í Playmo og naut þess að vera einn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Tenglar
Mínir tenglar
- Fjellhaug skoler Heimasíða skólans sem við erum í
- Veðrið í Osló...
Bloggvinir
- Anna systir Anna Björg og fjölskylda í Mosó...
- Álfheiðurin mín á Eyjó Hvað get ég sagt ??
- Guðrún mákona Guðrún og Óskar bróðir í Búðardal
- Súsý frænka
- Dandý á Egilsstöðum Mamma Söndru mm...