Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010
Föstudagur, 5. febrúar 2010
Vá hvað vikan líður hratt...
Er það bara hér eða líður tíminn svona hratt allsstaðar?
Föstudagurinn var hraður að vanda. Ég fór aðeins að versla í Makutano og svo þegar ég kom heim var eldhúsið fullt af konum sem voru að búa til brúðkaupskökur sem verða gefnar á sunnudaginn. Ég var beðin um að segja nokkur orð við brúðhjónin og svo að skera kökuna sem er víst mikið mál hérna... Kornelíus, brúðguminn kom sérstaklega til að biðja mig um þetta. Við konurnar gerðum 8 kökur þar sem 2 voru smá mislukkaðar. En samt góðar og krakkarnir okkar og nágrannana svolgruðu í sig af bestu lyst.
Laugardaginn síðasta fór ég ásamt Kirsten Lundebye og konum héðan til Tartar, sem er staður bara svona 20 mín. héðan. Við fórum rúmlega 2 og þegar við komum þangað var okkur tjáð að fundurinn hefði byrjað kl 10... eins gott að það var ekki ég sem skipulagði þetta.
Við fórum í kirkjuna með konunum sem biðu eftir okkur og þá hófst söngur og vitnisburðir. Það er rosalega gaman að sjá hvað þær hafa hvern hannyrðafund formlegan með Guðsþjónustu fyrst. Ein kona var komin til að segja konunum frá hvað alþingismennirnir væru að ákveða sem varðar konur og eða fjölskyldur. Mjög áhugavert!
Svo var tekið til höndunum og farið að sauma, hekla, prjóna og ég fór að klippa plastpoka sem nota átti í heklaða tösku. Mjög frumlegt, en flott!
Svo á heimleiðinni stoppuðum við í Makutano og fórum út að borða á hótelinu þar ásamt Kirsten. Það er svo gott við þennan stað er að maturinn er mjög ódýr og góður í senn.
Á sunnudeginum var okkur sem sagt boðið í brúðkaup í Leland. Kornelíus og Carolyn, sem að vísu hafa búið saman í nokkur ár, voru að gifta sig formlega. Þetta var mjög skemmtilegt. Mikill söngur og ræðuhöld í kirkjunni og eins eftirá. Kökumálið var aðal skemmtunin eftir kirkjuna. Þá var það Emma (kona skólastjórans og nágranni okkar) sem stjórnaði af mikilli natni og nákvæmni handaþvotti, kökuskurði, og svo brúðhjónunum í því að mata hvort annað og gefa hvort öðru að drekka heilt mjólkurglas. Svaramennirnir sömuleiðis og svo að lokum við Emma. Þetta var rosalega gaman og mikill hlátur. Brúðhjónin fengu svo gjafirnar afhentar og allir í nálægustu fjölskyldum sögðu nokkur orð. Það var gaman að sjá að þau fengu 4 rollur sem voru haldnar í bandi. Þegar brúðurin sá allar gjafirnar, sérstaklega rollurnar held ég, barst hún í grát.
Svo eftir að þetta allt saman fengum við að borða. Það voru hrísgrjón og kjöt. Ekki alveg viss um hvort það var hana eða lamba/geita kjöt.. Og í lokin chai. Ægilega fínt allt saman. Eftir þetta allt saman keyrði Fjölli "nokkrum" aðilum heim og svo lögðum við í hann aftur. Ferðalagið tók einn og hálfan tíma. Kristín Inga og Markús höfðu fórnað sér og voru heima með litlu pjakkana, sem betur fer segi ég, því það er ekkert gaman fyrir þá að bíða og bíða og bíða eftir öllu sem á að gerast.
Og svo var bara ný vika byrjuð.
Mánudagurinn var skóli og svo fórum við Kirsten til konu hérna í Bendera sem á við hættulegan sjúkdóm að stríða og hefur það mjög erfitt. Það er erfitt að sitja og heyra hvað margir hafa það þungt. Hvað getur maður gert?
Þriðjudaginn var skóli og svo skelltum við okkur til Kitale. Jakob kom með og við byrjuðum á að fara út að borða á Indverska / Kínverska veitingastaðnum þar sem við þurfum að bíða að minnsta kosti í einn tíma frá því við pöntum matinn til við fáum hann. En maturinn er ágætur. Svo ætluðum við í sund í Kitale Club, en það var verið að gera við sundlaugina og strákarnir ekki par ánægðir. Ég sagði þeim að við mundum bara kaupa ís og nammi og þá varð allt í lagi. Kitale er ruglingslegur staður finnst mér en ég mun nú örugglega læra á hann með tímanum.
Á miðvikudaginn fórum við Jostein Holmedahl í ELCK kirkjuna hér í Makutano. Þangað koma götustrákarnir á miðvikudags morgnum til að baða sig í ánni og þvo fötin sín. Þeir fá heita máltíð og svo safnast þeir saman í kirkjunn og fá andlega uppbyggingu áður en þeir fara á fótboltavöllinn og spila fótbolta í 2 tíma. Kristín Inga, Markús, Salómon, Davíð Pálmi og Valary (húshjálpin) komu með en ég fór með Valary og Davíð eftir kirkjutímann í Makutano á meðan KI, MVF og SSF spiluðu við guttana. Þau voru alveg hissa á því hvað þeir voru sprækir þrátt fyrir að límflaskan hengi í tönnunum á þeim. Þeir eru svo í öllum sínum fötum og meira að segja ullarpeysunni í 33 stiga hitanum ef þeir eiga hana. Það var gaman að sjá að eftir að hafa hitt strákana og kynnst þeim aðeins þá breyttust samskiptin frá því að vera bara betl í að vera spjall án betls.
Í gær var svo síðasti dagurinn sem Kirsten og Erling voru hér. Mér finnst voða leiðinlegt að sjá eftir sérstaklega henni þar sem við kynntumst ágætlega og leið svo ljómandi vel saman. Erling er líka voða næs, en hann var meira upptekinn. Við Kirsten fórum í heimsóknir til kvenna hér saman og svo voru ófáir kaffibollarnir drukknir og fékk ég mörg ráð frá henni varðandi það að vera kristniboðskona hér. Ómetanlegt! Um kvöldið fórum við svo á bænastund hjá Jostein. Þetta var að venju mjög góður fundur. Jostein talaði um mörg nöfn Guðs, Guð sem skapari, Guð sem frelsari, Guð sem framfærandi og svo framvegis. Ákaflega áhugavert.
Við enduðum kvöldið á því að tala við Daníel í gegnum Skype. Þetta var í fyrsta skipti sem við töluðum við hann svona og það var alveg frábært að heyra aðeins í honum. Hann lætur vel af sér og gengur bara vel í skólanum. Hann hefur eignast vini og það virðist vera það eina sem honum finnst vera ábótavant er maturinn. Brauð brauð og brauð. Gott að finna að honum líði vel.
Í dag var svo skóli og svo var dagurinn frekar afslappaður.Í hádeginu var ég með skyr og rjóma. Mmmmmmmmmm alveg yndislegt! Svo um kvöldið bjuggum við til pizzu á hefðbundinn hátt og strákarnir og KI horfðu á teiknimynd á meðan pizzan var borðuð. Jostein kom í pizzu líka og það var mjög gott að spjalla aðeins við hann líka.
Seint í kvöld komu svo tveir menn.. Geoffry og Kornelius frá Leland. Þeir komu færandi hendi til að þakka fyrir komu okkar í brúðkaupið og kökustússið. Við áttum mjög gott spjall hérna á veröndinni yfir chai og salt hnétum sem ég steikti hérna um daginn.
Guð blessi ykkur og varðveiti!
Fanney
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tenglar
Mínir tenglar
- Fjellhaug skoler Heimasíða skólans sem við erum í
- Veðrið í Osló...
Bloggvinir
- Anna systir Anna Björg og fjölskylda í Mosó...
- Álfheiðurin mín á Eyjó Hvað get ég sagt ??
- Guðrún mákona Guðrún og Óskar bróðir í Búðardal
- Súsý frænka
- Dandý á Egilsstöðum Mamma Söndru mm...