Sunnudagur, 1. nóvember 2009
Ferð til Kanyao
Síðustu þrjú árin erfið.
Föstudaginn 23 október fórum við Daníel, elsti sonur okkar, í eftirlitsferð með matvæladreyfingu til Kanyao, sem er í kringum tveggja tíma fjarlægð frá Kapenguria. Kanyao er á sléttunni og nálægt landamærum Uganda. Við lögðum af stað um hádegið og komum til Kanyao um þrjú leytið. Við komum á undan flutningabílnum sem flutti kornið og baunirnar sem átti að dreifa. Við notuðum tækifærið og ræddum aðeins við þorpsnefndina sem sér um úthlutun á matnum. Við ræddum einnig við öldungana á svæðinu. Núna lifa flestir á því að safna Alóavera vökva og selja hann. Það notar um það bil viku til að safna 5 lítrum. Jörðin er svo þurr að það er lítill vökvi í plöntunum. Fyrir 5 lítra fá þau um 50 shillinga (80 kr.). Á þessu svæði fara mennirnir með nautgripina burt í miklum þurrkum og skipta sér ekki af konum og börnum. Þess vegna eru eldri konur verst staddar á þessu svæði. Við ræddum við tvær konur. Sú fyrri var Celine, 25 ára sem á 6 börn. Fjölskyldan á þrjár kýr sem maðurinn fór með til Uganda. Hún safnar Alóavera vökva og kaupir 2 kg. af maís fyrir 80 shillinga. Það endist í 4 daga fyrir fjölskylduna með því að búa til súpa úr mjölinu. Hún tínir líka ávexti sem eru mjög slæmir fyrir magann, en með því að sjóða þá í 6 - 8 tíma þá er í lagi að borða þá. Hún veit um einn eldri mann sem dó vegna hungurs. Við töluðum einnig við Teresu. Hún átti 10 börn en 5 dóu úr malaríu. Hún sagði að síðustu þrjú árin hafa verið mjög erfið. Hún hefði byrjað á því að selja dýrin sín fyrir mat. En núna væru þau öll seld eða dáin úr sjúkdómum eða hungri. Síðasta árið hefur hún lifað af því að tína rætur. Hún leitar þar til hún finnur eina, þá selur hún hana. Hún fær 20 shillinga (36 kr.) fyrir hana og fyrir það getur hún keypt 0,5 kg. af maísmjöli. Það endist henni í tvo daga. Hún tínir um það bil þrjár rætur á viku. Þrjár konur, sem hún þekkti á hennar aldri, hafa dáið vegna hungurs.
Líf og dauði.
Sunnudaginn 25. október var hringt í mig og ég beðinn um að koma á skrifstofuna hjá kirkjunni í Kapenguria. Þar hitti ég Philip Njeris, einn af tveimur yfirumsjónar-aðilum yfir matvæladreifingunni. Alfred bílstjórinn úr ferðinni til Sekerr var þarna líka. Alfred lét mig hafa miða með nafni á. Hann sagði að þetta væri nafnið á stráknum hennar Yohana. Strákurinn heitir Naomi Chepatei. Siðan sagði Philip við mig að þeir hefðu stoppað á sjúkrahúsinu í Ortum til að athuga um ungu konuna sem við fórum með þangað. Hann sagði að fæðingin hefði gengið illa og það þurfti að taka barnið með keisaraskurði. Philip rétti mér annan miða og sagði að konan héti Milka og að barnið héti Pehumba, það væri stúlka. Hann sagði að Milka hefði dáið eftir aðgerðina. Mamma hennar hefði ekki getað borgað sjúkrahúsreikninginn og þess vegna tekið barnið og lagt gangandi af stað til Sekerr fjallanna. Philip ætlar að reyna að hafa upp á henni og koma barninu aftur á sjúkrahúsið. Hann spurði mig hvort hann gæti gert það með þeirri vissu að ég myndi borga sjúkrahúskostnaðinn. Ég svaraði að ég vildi það og myndi reyna það en yrði að vita hvað reikningurinn væri hár áður en ég gæfi endanlegt svar. Ég kvaddi Philip og Alfred og þakkaði þeim kærlega fyrir upplýsingarnar. Eftir að ég kom heim varð mér hugsað til ferðarinnar frá Sekerr til Ortum sjúkrahússins. Á leiðinni keypti ég kók handa Milku sem hún drakk úr af áfergju þegar bíllinn stöðvaðist. Ég notaði þá tækifærið og leit aftur í, til að sjá hvernig færi um hana. Hún horfði óörugg uppávið til að athuga hvað væri að gerast. Eitt skiptið stóð ég í dyragættinni á bílnum og tók mynd niður í pallinn. Hún horfði undrandi á mig. Ég fór að hugleiða að trúlega eru þetta síðustu myndirnar af henni lifandi. Pehumba, ef hún lifir mun ekki þekkja mömmu sína. Þetta er átakanlega sorglegt. Ég hugsa til þess hve ung Milka var, hve augnaráðið var fullt af lífi en samt óöryggi. Þegar ég kvaddi hana var hún komin í hjólastól og var á leið inn í sjúkrahúsið. Ég tók í hönd hennar og lét hana hafa 1000 shillinga, þetta vonaði ég að myndi hjálpa henni aðeins. Þegar við fórum frá sjúkrahúsinu bað ég Guð um að gæta hennar og að fæðingin gengi vel. Ég man að ég hugsaði að kannski myndi barnið deyja í fæðingunni, en aldrei hugsaði ég út í að móðirin gæti dáið. En við mennirnir erum svo vanmáttug í mörgu og nú er lífi Milku hér á jörðinni lokið. Bæn mín beinist að barninu, ég bið og vona að það lifi. Kannski fæ ég tækifæri seinna til að gefa því myndirnar af móður sinni sem ég tók.
Tenglar
Mínir tenglar
- Fjellhaug skoler Heimasíða skólans sem við erum í
- Veðrið í Osló...
Bloggvinir
- Anna systir Anna Björg og fjölskylda í Mosó...
- Álfheiðurin mín á Eyjó Hvað get ég sagt ??
- Guðrún mákona Guðrún og Óskar bróðir í Búðardal
- Súsý frænka
- Dandý á Egilsstöðum Mamma Söndru mm...
Athugasemdir
æ kommentið mitt fór á rangan stað, átti að fara hingað en fór á síðustu færslu... ég segi þá hæ hér líka :o)
Aldapalda (IP-tala skráð) 4.11.2009 kl. 09:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.