Leita í fréttum mbl.is

Matvæladreifing í Chepkopegh og Sarmach

Matvæladreifing í Chepkopegh og Sarmach

 

Ég hugsa ekki um það.

 

Fimmtudaginn 26 nóvember fórum ég og Daníel til Pókot. Tilgangurinn var að yfirfara bókhaldið fyrir neyðaraðstoðina og að fylgjast með tveimur matvæladreifingum. Daníel hafði ákveðið að vera saman með hóp af nemendum frá Noregi sem eru staddir í Pókot þessar vikurnar. Hópurinn gengur undir nafninu TEFT. Ég ákvað hinsvegar að skipuleggja tvær ferðir niður á slétturnar, til að fylgjast með matvæladreifingunni. Eftir samtal við þau sem eru ábyrg fyrir matvæladreifingunni var ákveðið að ég myndi fara til Chepkopegh daginn eftir. Það var ákveðið að ég skyldi keyra saman með bílstjóranum, Jósef, sem færi með maísinn og baunirnar til Chepkopegh. Við lögðum af stað um 10 leytið um morguninn. Við stoppuðum í bænum Chepareria sem er á leiðinni og tókum Samuel Powon með okkur, hann er ábyrgur fyrir matvæladreifingunni á þessu svæði.  Margir voru komnir á svæðið þegar við komum. Ég fylgdist með dreifingunni og ákvað að ræða við nokkra skjólstæðinga. Mig langaði spyrja þá nokkurra spurninga. Ég byrjaði á að ræða við Paulina Kapelin, 39 ára. Hún á 6 börn, einn strák og fimm stelpur. Af dýrum á hún 2 nautgripi og 5 geitur. Hún á einnig akur upp á 5 ekrur,  en uppskeran eyðilagðist í ár vegna þurrka. Þegar maðurinn hennar lifði áttu þau í kringum 30 dýr. Í síðasta mánuði fékk hún útdeilt 30 kg af maís en engar baunir. Núna fékk hún 30 kg af maís og 3 kg af baunum. Hún er meðlimur í lútersku kirkjunni á þessu svæði. Eiginmaðurinn dó fyrir 9 árum. Núna býr hún ein með fimm af börnunum, eitt er farið að heiman. Elsta barnið er í kringum 20 ára en það síðasta 6 ára. Mér brá aðeins við þessar upplýsingar og spurði hver væri faðir yngsta barnsins. Hún sagði að faðir tveggja yngstu barnanna væri bróðir látins eiginmanns hennar. Ég spurði hvort hann styddi hana og börnin en hún sagði að það gerði hann ekki. Ég spurði þá hvað henni þætti um þetta. "Ég hugsa ekki um það", svaraði hún. Hún telur að maturinn sem hún fékk núna muni duga í kringum tvær vikur.

Nicola Lönyakow er 30 ára og á eina konu og fjögur börn. Konan er reyndar ólétt núna. Börnin eru á aldrinum 2 - 10 ára. Hann og fjölskyldan búa hjá foreldrum hennar. Hann á 3 nautgripi, 5 rollur og 10 geitur. Hann á einnig 7 ekrur af ökrum. Öll fjölskyldan er hefðbundnar afrískrar trúar. Hann telur að maísinn og baunirnar endist í eina og hálfa viku. Hann fær stundum vinnu við að brenna kol. Þegar það gerist hjálpar það fjölskyldunni til að kaupa mat. Þau borða tvisvar á dag ef þau geta. Hann sagði að konan og börnin þurfi að fara 2 km til að ná í vatn. Ég spurði hvort þau hefðu getað borðað alla dagana síðasta hálfa mánuðinn, hann svaraði að svo  væri ekki. Hann sagði að matargjöfinn hjálpaði mikið og hann teldi að þeir sem verst væru staddir væru þeir sem fengu hjálp.

Joyce Ngoyiakapel, veit ekki hvað hún er gömul. Eiginmaðurinn dó fyrir þremur árum. Hún á 6 börn, 2 stelpur og 4 stráka. Börnin eru á aldrinum 5 - 25, elsta barnið á eitt barn. Öll börnin og barnabarnið búa hjá henni, barnabarnið var getið í lausaleik. Hún á 2 nautgripi, 4 geitur og 10 kindur. Hún á akur sem er 5 ekrur. Uppskeran eyðilagðist í ár. Hún er í Lútersku kirkjunni. Hún telur að maturinn endist í tvær vikur. Ég spurði hana hvort hún teldi að þeir verst stöddu væru að fá hjálp. Hún svaraði því játandi. Ég spurði þá hvort það væri eitthvað sem hún vildi segja að lokum. "Það eru miklu fleiri sem þurfa hjálp en fá hana ekki".

Nú var búið að dreifa öllum maísinum og baununum. Mér var boðið að segja nokkur orð að lokum. Ég þakkaði fyrir tækifærið til að geta hitt þá sem fá aðstoðina og að geta fylgst með matvæladreifingunni. Ég sagði að ég væri þarna staddur fyrir hönd, Íslenska Utanríkisráðuneytisins, Sambands Íslenskra Kristniboðsfélaga, Norska Lúterska Kristniboðssambandsins, Hjálparstarfs Norsku Kirkjunnar og nokkurra einstaklinga sem gefið hafa pening í þetta verkefni. Ég sagði einnig að við sem værum að deila út mat þarna í dag, hefðum fengið innsýn inn í hve lífið er erfitt á sléttunum í Pókot núna. Við vitum að mun fleiri þurfa aðstoð. En þetta er það sem við getum gert í dag og erum við þakklát fyrir það. Ég sagði að það væri erfitt starf sem þorpsnefndin á staðnum hefði unnið þegar hún valdi út hverjir fá hjálp og hverjir ekki. En við værum þeim mjög þakklát. Einnig get ég ekki séð annað en að öll framkvæmd á því að velja hverjir þurfa hjálp og útdeilingin á matvælum gangi mjög vel fyrir sig. Eftir þetta keyrðum við heim á leið.

 

Bardagar, fjölkvæni og eitruð ber.

 

Laugardagsmorgun kl. 7:30 lögðum við Jósef af stað til Sarmach. Við tókum Thomas Lokorii uppí í Ortum, hann er eftirlitsaðili fyrir Sigor svæðið. Ég spurði hvort hann vissi nokkuð um barnið hennar Milku Justus (Sú sem dó í fæðingunni). Hann sagði að það væri hjá ömmu sinni og vegnaði ágætlega, en það væri samt lítið. Ég sagði að ég hefði tekið myndir af Milku áður en hún fór á sjúkrahúsið og ég velti fyrir mér hvort ég ætti að gefa barninu þær. Hann sagði að það væri ekki gott að koma með það til ömmunnar núna. Hún myndi bara fara að hágráta. Það myndi bara ýfa upp minningar, hún væri að reyna að gleyma núna. Ég sagði að ég myndi þá bíða með það. Hann sagði að ef ég vildi hjálpa barninu þá væri best að fara á staðinn og skoða hvað það vantaði.

Samson K. Maiyo.Þegar við komum til Sarmach voru ekki allir skjólstæðingarnir komnir. Ég gaf mig á tal við mann sem stóð nálægt mér og í ljós kom að hann var yfir lögreglunni á staðnum.  Hann heitir Samson K. Maiyo og á 3 stráka og eina stelpu. Hann er liðþjálfi og hefur starfað fyrir lögregluna í 28 ár. Hann kom til  Pókot í febrúar. Hann starfar fyrir AP (Administration Police) og þar eru lögreglumenn fluttir á milli staða á þriggja mánaða fresti. Hann sagði að það væri gert til að koma í veg fyrir spillingu og að menn misnotuðu vald sitt. Hann vinnur í 3 vikur samfellt og fær eina viku frí. Ég spurði hvort þetta væri hættulegt svæði sem við værum á núna. Hann svaraði því játandi og að njósnarar frá lögreglunni hefðu upplýsingar um að Turkanamenn ætluðu að gera árás á  næstunni, á tvo til þrjá bæi, þar á meðal þessa stöð. Turkana er svæði sem liggur að Pókotsvæðinu og þar býr Turkanaþjóðflokkurinn. Pókotþjóðflokkurinn og Turkanaþjóðflokkurinn hafa í gegnum tíðina stolið nautgripum hvor af öðrum. Þetta hefur valdið mörgum bardögum og harmleikum.  Turkanamenn hafa gert fjórar árásir síðan Samson kom til Pókot. Hann sagði að einn lögreglumaður hafi dáið í átökum á þessu tímabili. Það var reyndar þegar Pókotmenn gerðu áras. Í síðustu viku gerðu Turkanamenn áras og þá særðust tveir heimavarnaliðar. Heimavarnaliðar eru heimamenn sem fá vopn og smá þjálfun, en þeir fá ekki borgað. Samson er með 6 lögreglumenn á sínu valdi og 12 heimavarnaliða. Annar þeirra sem særðist er alvarlega slasaður. Hann sagði að Turkanamenn væru með AK47 hríðskotabyssur, sem þeir fá frá Uganda. Fyrr í þessum mánuði drápu Turkanamenn einn Pókotmann og stálu 3000 nautgripum. Ég spurði hvað hann teldi vera mest ábatavant á þessu svæði. Hann sagði að það væri stjórnunin. Ef það væri meira um fundi á milli Turkanaþjóðflokksins og Pókotþjóðflokksins myndi ekki vera svona margir bardagar. Hann meinar að stjórnendur þurfa að vera virkari. Nú var kallað á Samson og hann gekk í burt. Ég talaði við Jósef á meðan. Þegar Samson kom aftur sagði hann að heimavarnaliðið hefði rekist á slóð eftir Turkanamenn á svæðinu. Þetta væru eflaust njósnarar frá þeim. Hann sagði að heimavarnaliðið þekktu slóðirnar eftir Turkanamenn á því að þeir byggju til öðruvísi skó. Ég spurði hvort við værum í hættu, en hann sagði að svo væri ekki. Ég hafði séð eina múslímska konu á svæðinu og spurði hvort það væru margir múslimar hér. Hann svaraði því neitandi, hún væri kona eins lögreglumannsins. Ég spurði hverrar trúar hann væri. Hann svaraði, "ég er kristinn" og tilheyri Africa Inland Church.

Nú var allt tChepaitoy Bilaiker. Undir trénu með eitruð ber.ilbúið til að dreifa matvælunum og Thomas byrjaður að tala við skjólstæðingana. Við hættum að tala saman og ég fylgdist með  byrjuninni á matvæladreifingunni. Síðan spurði ég nokkra af skjólstæðingunum hvort þeim væri sama um að ég tæki mynd af þeim og spyrði nokkurra spurninga.  

Ég byrjaði á að tala við Chepaitoy Bilaiker, hún heldur að hún sé í kringum 65 ára. Hún á einn strák og eina stelpu. Eiginmaðurinn dó fyrir 3 árum. Þau búa þrjú saman á heimilinu. Hún á 5 nautgripi, og 10 geitur en engan akur. Hún tilheyrir Lútersku kirkjunni. Heimilið hennar er að fá mat í fyrsta skipti núna, 20 kg af maís og 2 kg af baunum. Hún telur að maturinn endist í eina viku.

Nguratolim Korlau, er í kringum 70 ára. Hann á eina eiginkonu, einn strák og eina stelpu. Hann á 15 nautgripi en engan akur. Hann er hefðbundnar afrískrar trúar. Hans heimili fékk 20 kg af maís og 2 kg af baunum. Hann telur að maturinn endist í 5 daga. Hann segir að þessi þurrkur sé sá versti sem hann muni eftir í sínu lífi. Ég spurði hvort hann æti berin af trénu sem við stóðum undir. Hann svaraði að í fortíðinni hefði það verið allt í lagi. Þau þurfa reyndar að sjóða þau í 10 klst., vegna þess að þau eru eitruð. Ef þau eru borðuð hrá getur fólk dáið. En núna þegar þau sjóða þau í  10 klst. og borða, fá þau niðurgang af þeim. Ég spurði hvort hann drykki blóðið úr nautgripunum, ég veit að fólk úr sumum þjóðflokkum í Kenýa gera það. Hann sagði að þeir gerðu það ef það væri nóg af grasi og vatni. En núna er svo lítið blóð í gripunum að þeir myndu deyja ef þeir tækju blóð úr þeim. Þeir gera það með því að stinga á æð í hálsinum og láta blóðið renna. Sárið lokast síðan og hægt er að gera þetta aftur seinna.

Chepolopkyun Abukot.Chepolopkyun Abukot, er í kringum 80 ára. Hún á tvær stelpur og einn strák. Eiginmaðurinn er dáinn. Þau búa fjögur saman. Hún á 4 geitur, það er allt og sumt. Það er búið að stela öllum nautgripunum. Hún er kristinn (Reformed). Hún telur að maturinn endist í 10 daga. Hún segist vera glöð núna yfir að hafa einhvern mat. Hún hefur verið veik síðustu 5 mánuðina. Ég heyrði að hún hóstaði og það hljómaði ekki vel. 

Cheposo Lemungole, veit ekki hvað hún er gömul. Hún á sex stelpur. Eiginmaðurinn er gamall, um áttrætt. Hann átti aðra konu sem er dáin núna. Sú kona var um 65 ára þegar hún dó árið 1991. Sú kona átti tvær stelpur og tvo stráka. Chepose Lemungole og dóttir fyrri konunnar, Cheposekek John..Núna búa þau 10 á heimilinu hennar. Ég spurði hvernig sambúðin við fyrstu eiginkonuna hefði gengið. Hún svaraði að hún hefði gengið mjög friðsamlega fyrir sig. Það stóð yngri kona við hliðina á henni og ég spurði hver hún væri. Hún svaraði að hún væri dóttir fyrri konunnar. Hún heitir Cheposekek John. Hún á 3 stráka og 5 stelpur. Cheposo sagði að hún væri hefðbundnar afrískrar trúar. Hún á enga nautgripi, þeir hafa allir dáið í þurrkinum.  Hún grefur eftir gulli til að fá einhvern pening fyrir mat. Hún átti eitt barnabarn, en það dó í einni áras Turkanamanna. Þegar ég spurði hvort það væri eitthvað sem hún vildi segja að lokum, svaraði hún, "Komið með kirkjuna hingað".

            Við lukum við matardreifinguna og lögðum af stað heim á leið. Jósef og Thomas ákváðu að keyra aðeins inn á Turkanasvæðið. Þar keyptum við okkur mat. Ég sá að hendurnar skulfu aðeins þegar ég byrjaði að borða, mundi þá eftir að ég hafði borðað frekar lítið síðustu daga. Eftir matinn keyrðum við heim. Við komum til Kapenguria um sex leytið. Ég fékk mér eina kók og fór síðan að sofa. Ég var útkeyrður, í orðsins fyllstu merkingu, og með hitakastaeinkenni þegar ég fór að sofa. Það hafði verið heitt á sléttunni og smá vindur. Eitt af því síðasta sem ég hugsaði áður en ég sofnaði var að ég yrði að muna eftir að hafa derhúfu eða hatt með mér næst.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Fanney og Fjölnir í Kenýu
Fanney og Fjölnir í Kenýu
Störfum og lifum sem kristniboðar í Pokot, Kenýa

Nýjustu myndir

  • Valary að búa til hundamat
  • Við Susan og Davíð við kleinugerð
  • Ég líka.. ég líka
  • Pauline að leika sér að skjóta
  • Pauleine og Charles frá Marakwet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband