Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Naivasha

Um helgina fórum við frá Nairobi í fyrsta sinn til Naivasha og Crescent Island. (Out of Africa var tekin upp þar)

Ferðin var mjög góð og mikil náttúruupplifun. Sáum 5 metra vilta Kletta Python (alvöru kirkjuslanga) gíraffa, gazellur, sebrahesta, flóðhesta, flamingó fugla, pelikana, apa, wild-beast, villisvín, svo eitthvað sé upptalið.

Var að setja myndir úr ferðinni í albúmið.. kíkið inn á það. Er að fara að sofa, er uppgefin eftir frekar lítinn svefn í tjaldinu í nótt.

Knús frá Fanney og fj.


Hnéskelin aftur úr lið...

Já það er alveg satt.. Daníel lenti í því í 3 sinn á tæpu ári að hnéskelin fór úr lið Frown En kappinn setti hana í aftur sjálfur. Já ég er ekki að grínast.. hann ar búinn að segja það áður að ef þetta mundi gerast aftur ætlaði hann að poppa henni inn aftur. Ég hélt samt að hann væri bara að grínast..

Og þá er það bara hækjur í nokkrar vikur og fótboltaferillinn endanlega (væntanlega) búinn. Hann sem var í úrtaki í skólanum og var alveg að fíla sig í íþróttum þar. Æ Æ greyið!

Það var svo gaman að 5 mínútum eftir að hann kom heim, kom bekkjasystir hans og hennar bróðir til að kíkja á hann. Virkilega huggulegt af þeim. Daníel liggur nú bara hér og er frekar niðurdreginn. Endilega biðjð fyrir honum!

Annars var dagurinn góður. Við Fjölli fórum í málaskólann og lærðum fullt. Þegar við komum heim fór ég á skrifstofuna hér á lóðinni og ætlaði að borga 70 KSH sem Josephine (húshjálpin) skrifaði á okkur um daginn. Hana vantaði kartöfflur í matinn og náði í þær þar.. jája.. allavega.. ég ákvað að nota þá kiswahili sem ég hafði lært í dag og talaði við Charety á minnu ungbarnamáli..  ég ætlaði að segja "Josephine kom hérna um daginn og fékk kartöfflur sem ég ætla að borga núna" sagnin sem ég ætlaði að nota er kukunua sem þíðir að kaupa en ég notaði kunya sem þíðir að kúka. Þannig að ég sagði Josephine kom hérna um daginn og kúkaði kartöfflum sem ég ætla að borga núna" og þið getið ímyndað ykkur hláturinn. Svo seinna um daginn þegar Charety hitti Josephine skellti hún uppúr og sagði Josephine alla söguna. Já svona getur maður mismælt sig! Smile

Fjölli fór með Kristínu Ingu og øyvind til að kaupa gítar í dag. Þar var frekar fúll afgreiðslumaður (eigandi) sem sinnti þeim ekki neitt, en þegar Øyvind fór að kaupa af honum  og svo Fjölli lifnaði nú aðeins yfir honum og sérstaklega þegar Fjölli fór að borga þá sagði indverjinn "You have a strong body, you are in good shape, very strong" og spurði Fjölla hvort hann hefði ekki tekið eftir því að hann hefði verið að horfa á hann. Nei svaraði Fjölnir og var frekar vandræðalegur. En Fjölli fékk mikinn afslátt, mun meiri enn Øyvind sem keypti meira.

Við vorum með gesti í kvöld Øyvind og Ann Jorid með sín 2 börn Joakim og Katinka. Ég bjó til pizzu, en klikkaði á að rafmagnið fer kl 17 á föstudögum og kemur ekki aftur fyrr en 18:30. Ég þurfti þá að seinka kvöldmatnum frá 17 - 19 sem var allt í lagi fyrir mitt heimilisfólk, en normenn eru nú vanir að borða fyrr. Þau komu og við áttum mjög skemmtilega kvöldstund með þeim. Rune kom aðeins líka til að kíkja á sjúklinginn. Hann stoppaði aðeins og reytti af sér brandarana.. Bara gaman!

Jæja gott fólk. Guð blessi ykkur!

 


Ugali na mboga...

20. Ágúst 2009

Nóttin var erfið... litlu tveir fengu í magann og við Fjölli vorum á vappi hér með þá til skiptis. Þegar klukkan hringdi kl 7 var ekki hægt að fara á fætur. Sem betur fer gátu elstu tveir fengið sér morgunmat sjálfir (duglegir?) og við hin sofið til 8. Þá var spidigonzales settur í gang og Salómon flýtt svo hann næði skólanum á réttum tíma. Gott að skólinn sé um 100 skref frá heimilinu!

Við Fjölli áttum að mæta á fund hérna í nágrenninu kl 9 þannig að Davíð var ekkert rosalega hress með okkur þegar hann fattaði að við værum að yfirgefa hann stuttu eftir að hann vaknaði. En Geoffry, garðyrkjumaðurinn... já já við erum með garðyrkjumann sem kemur 1. sinni í viku fyrir hádegið. Já Geoffry leyfir Davíð að hjálpa sér í garðinum og þess vegna gekk ágætlega að koma sér úr húsi. Fundurinn gekk vel og við komum heim um 10:30. Þá var það Ugali og Mboga í Kibandaen en strákarnir fengu sér brauð með súkkulaðiáleggi og Chai með zukari með... nammi namm. Við Fjölli áttum svo að mæta kl 12:30 í Hekima, málaskólann. Ég var svo þreytt að mér kveið pínu fyrir að eiga eftir að tala og reyna að fylgjast með í 3 tíma... en það gekk vel og dagurinn var skemmtilegur að venju. Þegar við komum heim var Josephine búin að elda kjúkklingarétt og gera tortillur og Lucy var búin að taka allt til og ganga frá þvotti og búa um rúmin.. já ég þarf að klípa mig í hendina til að vera viss um að þetta sé ekki draumur...

Svo náðum við smá tíma með teindó í tölvunni (MSM) áður en strákarnir litlu voru settir í háttinn, að vísu fór elsta eintakið líka snemma að sofa... og Markús passaði svefnenglana á meðan við fórum í bænahóp hér á lóðinni. Það var rosalega uppbyggjandi.. Marianne, skólastjórinn hér var með stundina og hún las og deildi með okkur sálmi 62. Virkilega gott. Svo áttum við góða stund á eftir, átum ís og ávexti, köku ++ og töluðum við fólkið. Þegar heim kom var smá stund á FB og dagbókin góða sem þið njótið nú að lesa...

 

Set hérna með lesningu kvöldsins og vona að Heilagur Andi opni ritninguna fyrir okkur eins og hann vill.

 

Sálmur 62

“Bíð róleg eftir Guði, sála mín, frá honum kemur hjálpræði mitt. Hann einn er klettur minn og hjálpræði, háborg mín ég verð eigi valtur á fótum. Hversu lengi ætlið þér að ryðjast allir saman gegn einum manni til að fella hann eins og hallan vegg, eins og hrynjandi múr? Þeir ráðgast um það eitt að steypa honum úr tign hans, þeir hafa yndi af lygi, þeir blessa með munninum, en bölva í hjartanu. Bíð róleg eftir Guði, sála mín, því að frá honum kemur von mín. Hann einn er klettur minn og hjálpræði, háborg mín ég verð eigi valtur á fótum. Hjá Guði er hjálpræði mitt og vegsemd, minn örugga klett og hæli mitt hefi ég í Guði. Treyst honum, allur þjóðsöfnuðurinn, úthellið hjörtum yðar fyrir honum, Guð er vort hæli. Hégóminn einn eru mennirnir, tál eru mannanna börn, á metaskálunum lyftast þeir upp, einber hégómi eru þeir allir saman. Treystið eigi ránfeng og alið eigi fánýta von til rændra muna, þótt auðurinn vaxi, þá gefið því engan gaum. Eitt sinn hefir Guð talað, tvisvar hefi ég heyrt það: Hjá Guði er styrkleikur. Já, hjá þér, Drottinn, er miskunn, því að þú geldur sérhverjum eftir verkum hans.


“Ungependa kulala?”

18. Ágúst 2009

Vöknuðum á sama tíma, kl 7 og fengum okkur morgunmat. Erum búin að fatta að það gengur ekki að kaupa mjólk eða mjólkurvörur þar sem þær súrna um leið... þá er það bara G-mjólk... Allt í lagi með það. Strákarnir fóru í skólann og við Fjölli fórum að vinna. Hann með körlunum og ég í eldhúsið. Það var mjög gaman. Titus og Barazi (þeir vinna í eldhúsinu) ætla að setja okkur Fjölla í kiswahili próf, til að við verðum best í bekknum. Þeir vita ekki að við erum bara 2 í bekknum... Þau í eldhúsinu eru mjög dugleg að útskýra á kiswahili og kenna mér / láta mig útskýra á kiswahili, eða einhverju barnamáli.. :-)

Eftir matinn fórum við í málaskólann og lærðum heilmikið, nema að Fjölli var eitthvað svo þreyttur. Jacken (kennarinn) hló mikið af honum og spurði hann mikið hvort hann vildi fara á sofa. “Ungependa kulala?” Þegar við komum heim var Josephine búin að búa til Chapati (sem er einskonar tortillur) og hakk. Strákarnir voru þreyttir og DSA frekar pirró. Stemningin hér var ekki góð eftir matinn. Fjölnir fór að sofa um 18:30 og ég reyndi að halda ró minni. SSF fékk playmobann í viku og DSA var með derring vegna tölvumála... Fór að sofa um 22.


Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss.

17. Ágúst 2009

Vöknuðum kl 7. Strákarnir voru frekar seinir að koma sér á fætur, en mættu á réttum tíma í bussinn. Ég klippti Fjölla, hann varð voða sætur.. Við áttum ekki að vera mætt í Kiswahiliskólann fyrr en 12:30 þannig að við Fjölli ákváðum að fá að hjálpa til á lóðinni. Fjölli fór að moka sand og setja vatnstankinn upp á loft og ég fór í eldhúsið að elda Ugali og skera hitt og þetta. Mjög nytsamlegt fyrir okkur bæði. Svo var hádegismatur kl 11 og svo skólinn. DSA var með Lucy og Josephine kom. Þegar við komum svo heim var hún búin að elda og baka og þær Lucy búnar að taka af rúmunum, þrífa baðherbergið og WC og gera fínt hérna. Yndislegt að koma heim í tilbúinn mat og fínt heimili.. Vá! Strákarnir voru nýkomnir þegar við komum og þeir voru þreyttir og frekar geðvondir... en þegar þeir voru búnir að borða lagaðist skapið og þeir lærðu heima. Á meðan fórum við Fjölli með litlu tvo í smá göngutúr út fyrir lóðina. Við gengum í klukkutíma og enduðum á að kíkja á vinnufólk á akri hinum meginn við Scripture Mission. Það var frekar fátæklegt og hrörleg heimkynni. Börnin að gæta barnanna og dýrin á vappi í hlaðinu. Fólkið var á varðbergi gagnhvart okkur, en svo kom maður sem talaði ensku og þá varð þetta allt í lagi.. Strákunum fannst þetta skrítið og það var beðið innilega fyrir þeim þegar þeir fóru að sofa. Fjölli kveikti upp í arninum og þeir MVF fóru að hlusta á Baggalút. Jólalagið frá 2008... það er ekki allt í lagi með þá.. ha ha

 

Lesið endilega í Postulasögunni 4:12

 

"Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss."

 

Knús frá Fanney og co.

 

 


2 síðastliðnu dagar....

16. Ágúst 2009

Í dag vöknuðum við snemma og fórum öll í skólaferðalag með SSF til Arboretum.... Við rétt náðum að gera okkur klár, smyrja nesti og hafa okkur til fyrir kl 09 þegar við áttum að mæta hér á bílastæðinu til að fara með hinum á áfangastað. Garðurinn, sem er álíka eins og botanisk hage i Osló er rétt hjá Uhuru kirkjunni. (sem er kirkja sem við fórum í sl. sunnudag. Það var 3 1/2 tíma messa....) Fyrst var farið í leik, stöðvar sem átti að svara spurningum, gera lag, listaverk osfr. Það tók um 2 tíma og svo var borðað meðbragt nesti og kaffibrauð lagt í púkk. Svo var farið í leiki, DSA meiddi sig í hnéinu, en það gékk samt ágætlega. Turid og hennar strákar keyrðu með okkur og þegar við fórum heim fórum við í Ya Ya senterið til að kaupa NIV Study Bible fyrir strákana. Við gerðum það og keyptum líka Kiswahili lofgjörðardiska og Simplified Kiswahili fyrir tungumálanámið. Svo sýndi Turid okkur markað með notuðum fötum, skóm og eiginlega allt milli himins og jarðar. Rétt þar hjá er annað stæðsta fátækrahverfi Afríku. Við eigum eftir að fara þangað.

Þegar við komum heim fóru MVF og KIV með littlu guttana í sund og svo fékk DSA KIV til að keyra hann og Bárður (færíski strákurinn) til að horfa á fótboltaleik. Við Fjölli fórum með kaffi og muffins til sundlaugarinnar og spjölluðum þar við Liv Stine og strákana hennar. Mjög fínt. Svo fórum við heim og við Fjölli fórum að flytja internetið/routerinn og svo fylltist húsið af strákum til að leika við SSF og playmóið. DPF var líka með og stuttu seinna kom Chris til að leika við MVF og svo David, bróðir hans til að leika við SSF. Ég eldaði steiktar pulsur, pasta og franskar og það var bara gaman og góður matur. Þegar maturinn var búinn og allir á fullu að leika “hitti” ég ABI á FB og spjallaði heillengi við hana. Heimilið okkar er bara orðið hið fínasta. Okkur líður mjög vel hérna. Chris, KIV og MVF fóru í tónlistarherbergið og DSA var í tölvunni (eins og venjulega). Fjölli var að koma diskunum nýju inn í tölvuna og í MP3 spilarann, það tók hann netta 3 tíma! nei bara djók..

 

17. Ágúst 2009

Svaf illa í nótt vegna katta skr.. sem breymuðu fyrir utan húsið okkar í nótt. Fór 2 sinnum fram og reyndi að hræða þá í burtu. Fékk að sofa til 9:30. Elsku kéllinn minn svo góður við hana Mke sína. Ådne kom kl 9:30 til að leika í playmo og ég fór þá á fætur og fór í bað. Kom svo strákunum í fín föt og í sunnudagaskólann. Við mættum þar öll nema DSA, en það áttu bara að vera krakkarnir.. við Fjölli fórum heim og lásum í Máttarorði og sálm 90. Áttum góða stund og gott spjall við DSA. Eftir sunnudagaskólann tók ég til og svo kom Øyvind og spurði hvort við vildum fara út að borða með þeim kl 14:30. Við skelltum okkur með og fórum á Karen Blixen café... Mjög gott, svolítið lítið af mat, MVF ekki saddur. KIV, DSA og Bárður urðu eftir til að horfa á leik. Við fórum heim og ég fór út að ganga og Fjölli og MVF í fótbolta. SSF og DPF áttu að vera heima að leika, en þeir fóru til pabba síns stuttu eftir að ég fór. Göngutúrinn var góður, ég gekk með Turid, Kersti, Ann Jorid og Liv Stine fóru á undan. Svo fannst mér skrítið að krakkarnir kæmu ekki heim með matato (sem er einskonar strætó)og sendi Fjölla til að leita af þeim áður en myrkrið kæmi. Hann fann þau á Karen Blixen og slæmu fréttirnar voru að Liverpool tapaði. DSA frekar dapur. MVF fór í tölvuna og ég reyndi að setja Kiswahiliið í smá skipulag.. Fjölli var í tölvunni og DSA var í tölvunni... gaman gaman.

 

Guð blessi ykkur öll og ég mæli með að þið lesið sálm 90 í Biblíunni. (90:12 var talað um í Máttarorði) Það er góður og uppbyggilegur lestur. Snart okkur allavega í dag!

 

Knús frá Fanney og co.

 

 


1. skóladagurinn

 

Jæja, þá eru drengirnir byrjaðir í skólanum aftur Smile það er ótrúlegt að það sé ár síðan síðast... Daníel og Markús fóru á West Nairobi School, sem er ca 10 mín. héðan á bíl. Þeir koma til með að fara með skólarútu til og frá skólanum. Kristín Inga fór með þeim og verður þeim til stuðnings fyrstu dagana.

Salómon byrjaði í Norwegian Community School, sem er hér á lóðinni. Það var mikil eftirvænting í honum og hann var glaður og ánægður eftir fyrsta daginn.

Davíð Pálmi fékk skóladót eins og hinir og var hinn ánægðasti í morgun þegar hann tölti með Lucy, barnfóstrunni / swahilikennaranum sínum 

Hér eru nokkrar myndir frá deginum í dag:

 

Næstum allir tilbúnir til að fara í skólann....

 

 

 

 

 

 

 

 

Horft upp til bróður síns...

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Swahilinámið að byrja...

 


Fyrsta læknisheimsóknin vel yfirstaðin

Í morgun keyrði Fjölli mig til læknis þar sem grunur lék á að ég væri komin með svínaflensuna... Sem betur fer reyndist það ekki vera hún, en bara venjuleg bakteríu sýking í höfði og öndunarfærum.. same old same old.. En ég fékk frábæra þjónustu og pensillín og slímdrepandi (eitthvað sem heldur manni vakandi og vakandi og vakandi)

Í dag kom Swahilikennarinn hans Davíðs í fyrsta sinn. Takið eftir að hún er ekki barnfóstra í hans augum, en Swahilikennari. Hann er nefnilega svo svekktur að fá ekki að fara í skólann hér þannig að ég fann upp á þessu í staðinn og það virkaði bara vel. Hann kann nokkur orð eftir einn dag og þeim kom bara vel saman. Fóru út að leika, voru hér inni og hann er sáttur.

Salómon sést varla, hann og Ruben Mjølhus eru alveg að smella.. Þeir eru að gista hér saman aðra nóttina í röð og eru búnir að leika mikið, rífast og gera upp. Þannig að þetta lofar góðu.

Markús og Kristín Inga eru alveg að fíla sig. Í kvöld bjuggu þau til matinn og það var sungin (og leikin) valin Tímon og Pumba atriði úr mynd nr. 3. Rosalega  gaman að heyra í þeim og maturinn var góður.

Daníel er ekki eins sáttur, Egilsstaðir draga í hann, en vonandi nær hann að halda þetta út allavega fram að jólum eins og samið var um.

Fjölli er alveg að fíla taktinn hérna, R Ó L E G H E I T  , nema í umferðinni, en hann stendur sig alveg rosalega vel. Hægri keyrsla og allt á F U L L U  . Okkur er sagt að margir keyri drukknir, gefa ekki stefnuljós og jafnvel reyni fólk að komast inn í bílinn ef maður stoppar.. Við erum alltaf með læstar hurðir þegar við keyrum. 

Við erum sem sagt rosalega ánægð hér og allt er mjög spennandi. 

Endilega biðjið fyrir Daníel og veikindunum mínum.

Knús og kossar frá Fjölla, Fanney og strákunum og auðvitað Kristínu Ingu sem er ein af fjölskyldunni. Frábært að hafa hana!!


Komin til Nairobi :-)

Jæja ... þá erum við loksins komin á áfangastað og búin að hvíla okkur eftir ferðina. Ferðin gekk rosalega vel og við lentum hér í Nairobi um kl 01:40. Við vorum bara snögg að koma okkur inn í landið, fyrst þurfti samt frúin að fylla út 7 stk eyðublöð og fá vísum fyrir alla og það gekk bara vel. Allar töskurnar skiluðu sér en ekki barna bílstóllinn. Það tók alveg klukkutíma að ganga frá þeirri skriffisku.. en bara gaman - allir rosalega spenntir að vera komin til AFRÍKU!!!

Marianne, norski skólastjórinn hér tók á móti okkur ásamt 2 bílstjórum og ferðin til Scripture Mission sem er í úthverfi hér í Karen (Karen Blixen) gekk vel. Við komum í hús númer 7 og þar var matur í ísskápnum :-) og allir fengu sér brauð og skoðuðu nýja heimilið okkar. Það er hjónaherbergi / Salómon og Davíð við hliðina á okkur og svo Markús hinum meginn við hliðin á okkar herbergi. Klósett og baðherbergi og svo gangur. Inn af stofunni er svo unglingurinn sem var ekkert sérstaklega ánægður með að vera svona langt frá okkur hinum.. það voru svo mikið af hljóðum og svoleiðis sem honum leist ekkert á...

Svo að vakna daginn eftir og skoða garðinn - með stóru géi. Vá hvað allt er flott hér á lóðinni.Kristín Inga gisti hjá okkur fyrstu nóttina en svo fékk hún eigin íbúð númer C hér ofar á lóðinni. Hún er rétt hjá sundlauginni og fótboltavellinum.. ekki slæmt!

Fyrstu næturnar voru frekar erfiðar, ég fékk einhverja pest á leiðinni hingað.... En við erum öll að venjast þessu. Í nótt fékk Salómon upp og niðurgang og var rosalega illt í maganum.. þetta verður víst ekki í síðasta skiptið held ég.. :-)

Jæja elskurnar. Við vonum að þið hafið það gott og þökkum fyrir allar þær bænir sem við finnum að stíga upp til Guðs. Það hjálpar okkur mikið og við erum mjög þakklát fyrir ykkur!

Knús frá Fjölla, Fanney og strákunum og auðvitað Kristínu Ingu


Höfundur

Fanney og Fjölnir í Kenýu
Fanney og Fjölnir í Kenýu
Störfum og lifum sem kristniboðar í Pokot, Kenýa

Nýjustu myndir

  • Valary að búa til hundamat
  • Við Susan og Davíð við kleinugerð
  • Ég líka.. ég líka
  • Pauline að leika sér að skjóta
  • Pauleine og Charles frá Marakwet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband