Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Strokustrákur

Í gær kom ég í leikskólann og fékk þær fréttir að hann Davíð Pálmi hafði gert sér lítið fyrir og strokið úr "skólanum" eins og hann segir.

Hann hafði sótt sér fötu og klifrað upp á, opnað hliðið og hlaupið út. Ferðinni var heitið til Erle, sem er vinkona hans úr leikskólanum. Hún var ekki þar og ekki heldir foreldrar hennar, þar sem hún var í leikskólanum og þau í vinnunni. Þá vildi hann fara heim, en fann ekki húsið okkar. Hann fór nálægt stórum vegamótum og til allrar blessunar var maður í göngutúr með barn í vagni og fannst eitthvað undarlegt að svona lítill pjakkur væri einn á ferð. Hann gaf sig að Davíð og tók hann upp. Sýndi honum "konubabyið" sitt (stelpuna) sína og fékk Davíð til að benda sér á hvaðan hann kæmi. Guði sé lof og þakkir fyrir að þeir fundu leikskólann og við sluppum með skrekkinn!!

Ég vona að þið eigið góða helgi í Guðs nálægð og friði.

 

 


Ný önn enn á ný...

Þá er helginni að ljúka og ný önn að byrja og jafnframt sú síðasta. Við sátum ekki mikið með hendur í skauti, á föstudaginn fórum við til Inger Lise og Steinar, það var yndislegt. Það er orðið áþreifanlegt að brottför okkar fer að nálgast, mér finnst orðið erfitt að tala um og hugsa um að við séum að fara að fara... en þetta er nauðsynlegt í ferlinu... Á laugardeginum fengum við okkur göngutúr niðrí bæ. Við kíktum á Antoni og Tone og sáum loksins fínu íbúðina sem Anton gerði upp. Glæsileg! Guttarnir litlu, Davíð og Salómon röltu með okkur og við stoppuðum á leikvelli og borðuðum nesti í góða veðrinu. Svo um kvöldið var okkur Fjölni boðið í mat til Ho-Ching og Fredriks í Kóreanskt fondue... nammi namm. Þar hittum við líka litla kraftaverkið hann Hans, sem fæddist aðeins genginn  27vikur. Það er Guðs náð að hann lifir enn, en hann er með lifrarsjúkdóm sem að öllum líkindum mun leiða til þess að hann þurfi nýja lifur bráðlega :-( Endilega biðjið fyrir honum!

Næsta önn er semsagt um önnur trúarbrögð. Við komum til með kynnst helstu trúarbrögðum heimsins. Búddisma, Hindúisma, Íslam, Gyðingdómnum og einhverju fleira. Okkur hlakkar mjög til! Það verðum gaman að kynnast þessum trúarbrögðum.

Skil ykkur eftir í Guðs friði með texta úr Biblíunni, Orði Guðs. Þessi vers predikaði ungur nemandi um á samkomunni í Fjellhaug í kvöld:

"Eins og var á dögum Nóa, svo mun og verða á dögum Mannssonarins: Menn átu og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina, og flóðið kom og tortímdi öllum. Eins var og á dögum Lots: Menn átu og drukku, keyptu og seldu, gróðursettu og byggðu. En daginn, sem Lot fór úr Sódómu, rigndi eldi og brennisteini af himni og tortímdi öllum. Eins mun verða á þeim degi, er Mannssonurinn opinberast. Sá sem þann dag er á þaki uppi og á muni sína í húsinu, fari ekki ofan að sækja þá. Og sá sem er á akri, skal ekki heldur hverfa aftur. Minnist konu Lots. Sá sem vill sjá lífi sínu borgið, mun týna því, en sá sem týnir því, mun öðlast líf. Ég segi yður: Á þeirri nóttu verða tveir í einni hvílu, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn. Tvær munu mala á sömu kvörn, önnur verður tekin, hin eftir skilin. Tveir verða á akri, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn."

Þetta er áskorun fyrir okkur öll. 

Fanney og fjölskylda

 


Verkefnin í höfn...

Jæja þá erum við hjónakornin búin að sitja sveitt í 4 daga og skrifa 4000 orða verkefni hvor. Þau eru um predikun og sálgæslu. Þetta var gaman en erfitt þar sem ég er með ennisholubólgu og strákarnir frekar þreyttir á þessum skólaverkefnum okkar Fjölla. En núna erum við svo að segja búin og helgin er framundan. Veðrið er yndislegt, sumir nemendur eru í stuttbuxum meira að segja... Við íslendingarnir erum í okkar sokkabuxum og hlýju peysum!

Í kvöld er okkur boðið til Inger Lise og Steinar í mat og við förum öll. Davíð er að vísu í afmælisboði til um 20 en hann verður bara sóttur og settur í háttinn hjá IL og S. Dannsiboy kom heim í gær, eftir páskafrí á Egilsstöðum. Hann var alsæll með veruna þar og hefur jafnvel hugsað sér að verða eftir þar í menntaskólanum þegar við förum til Kenýa.... Frown

Ég vona að þið hafið það gott þangað til næst! Guð blessi ykkur ríkulega! Enda á orði dagsins úr Dýrmætara enn Gull:

"Óttast þú Drottin, þér hans heilögu, því að þeir er óttast hann líða engan skort."

Sálm. 34:10

Fannsa pannsa


Hvað skal segja....

Ég er alveg að detta úr þessu bloggi, en vil samt reyna að halda mig við það. Bæði til að bera fréttir til ykkar og halda dagbók um það sem við erum að gera... hefur eiginlega virkað sem mánaðarbók undanfarið...

Ég skellti mér til Íslands þann 31. mars.. ástæðan var að Áróra Eir, systurdóttir mín, var að fermast þann 5. apríl. Athöfnin var í Lágafellskirkju, virkilega góð messa. Ég verð nú að segja að það er gott að koma inní þetta form. Vita hvað gerist næst, taka þátt í messuliðunum og njóta þess að eiga samskipti við Guð og menn. Það voru um 15 börn sem játuðu Jesú Krist sem leiðtoga sinn og vonandi er þetta þá bara byrjunin af trúarlífi þeirra sem fullorðnir einstaklingar, en ekki endapunkturinn á kirkjugöngu þeirra!

Það var yndislegt að hitta alla ættingja og vini mína sem ég hitti. Gott að eiga rólegar stundir með sérstaklega mömmu og pabba. Venjulega þegar við hittumst er svo mikill erill í kringum mig, vegna drengjanna, að við varla náum að klára setningar. Við gátum bara spjallað um allt og ekkert og kúsað okkur. Líka gaman að hitta alla í fermingarveislunni. Fullt af fólki sem ég hef ekki hitt lengi. Svo fór ég út að borða með henni Öldu minni á Sjáfarmarkaðinum. Rosalega góður matur og einstaklega skemmtilegt "selskap" við töluðum og töluðum og töluðum...

Svo um kvöldið þann 5. fór ég til Keflavíkur til að ná í frumburðinn sem var að koma til að fara austur um páskana. Hann verður þar fram á 15. apríl.

Snemma snemma um morguninn þann 6. keyrði pabbi mér svo til Keflavíkur. Þá átti ég L A N G T   ferðalag fyrir höndum.. Fyrst flug til Gardemoen, bið í 4 tíma þar og svo lestarferð í um 5 og hálfann tíma til Kristiansand. Þar hitti ég eiginmanninn og guttana mína ásamt Gulla, bróðir Fjölla, hans komu Trine og 2 börn, Idun Andrea og Jón Stefan. Fjölli og strákarnir höfðu farið þangað á föstudeginum til að hjálpa Gulla að flísaleggja ganginn og pússa upp og búa til baðherbergi. Það var eins og ég hefði ekki hitt drengina mína í nokkur ár, því þeir tóku á móti mér með teikningum, gjöfum og kossum og knúsum. Ég upplifði mig sem sárt saknaðar mömmu og eiginkonu. Góð tilfinning. Davíð Pálmi átti afmæli þennan dag, en hann var sofnaður, þessi elska, en kom uppí um nóttina alsæll yfir því að vera búinn að fá mömmu sína aftur. Við fórum svo daginn eftir uppí skóg með pulsur og marsmellow.. grilluðum pulsurnar og í desert var svo marsmellow klesst með súkkulaði og kexi.. nammi namm. Trine undirbjó þetta allt saman og við áttum æðislega skógarstund saman. Takk Trine!! Á fimmtudeginum fórum við svo í dýragarðinn, sáum alls konar dýr.. ljón, tígrisdýr, gíraffa, sebrahesta, Timon, slöngur og fleira og fleira.. Mjög skemmtilegur dagur. Um kvöldið komu teindó og Steini, bróðir Fjölla og hans kærasta Linda til Kristiansand. Það var rosalega gaman að kynnast henni. Og við áttum mjög góðan tíma saman.

Svo fórum við daginn eftir, eða á Föstudeginum langa heim á leið. Fórum fyrst til Lindesnes, sem er syðsti punktur Noregs. Það er viti og heilmikil saga í sambandi við heimsstyrjöldina. Við rúlluðum svo heim á leið um 16 leitið og vorum komin um 22. Allir ánægðir en þreyttir.

Daginn eftir var veðrið yndislegt og við sátum úti með guttana með nesti og horfðum á þá hjóla og leika sér á hjólabretti og hlaupahjóli. Mjög gaman. Um 17 leitið fylltist allt af lögreglubílum og blaðamönnum. Einhver maður hafði þröngvað sér inn á herbergi eins leigjandans hér við skólann. Fjellhaug legir út herbergi til nemenda við aðra skóla. Maðurinn reyndi að nauðga henni en tókst það ekki sem betur fer. Hann skar hana samt með hnífi í átökunum, en sem betur fer slapp hún tiltölulega ómeidd, bara með 2 - 3 stungur og svo náttúrulega andleg sár. Lögreglan leitaði hans hér með hundi og var heillengi hér. Ekki mjög gaman að svona lagað gerist í nágrenni mans þegar strákarnir hafa verið hér úti að leika sér bara rétt áður.. Svo um kvöldið komu teindó, Steini og Linda í pizzu.

Páskadagurinn rann upp og byrjaði eins og síðustu páskadagar hafa gert. Páskaeggjaleit drengjanna. Þeir skemmtu sér konunglega og eftir að hafa fundið þau var komið sér vel fyrir fyrir framan barnaefnið í sjónvarpinu og namminu skóflað inn. Davíð Pálmi á metið. Rosalega er hann snöggur. Hann var byrjaður á hinna eggjum áður en þeir gátu snúið sér við...

Dagurinn í dag var líka mjög góður. Við byrjuðum rólega, Svenni kom í kaffi og svo hafði okkur verið boðið að mæta í páskaeggjaleit í leikskólanum hans Davíðs.. mikil spenna út af þessu síðustu daga.. Við mættum með þá tvo yngstu og það var byrjað á að finna fullt af litlum eggjum. Svo var farið inn og borðað pizza og hlaup með vanillusósu í desert. Svo var hoppukastali og alls konar dót og endað á leikriti og afhendingu á handbrúðu og nammipoka. Frábærlega skemmtilegt og góð stund fyrir okkur foreldrana að kynnast betur. Þetta er besti leikskóli sem ég hef kynnst.. á þá var ég ekkert óánægð með hina 3...

Jæja gott fólk. Þá hafið þið fengið afdrifum okkar um páskana lýst. Vonandi höfðuð þið gaman af. 

Á morgun erum við Fjölli að byrja á heimaprófi, eða verkefni, sem stendur yfir í tæpa 4 daga. Það verður annaðhvort úr sálgæslu eða predikun.. gaman gaman :-)

Guð blessi ykkur og varðveit!


Höfundur

Fanney og Fjölnir í Kenýu
Fanney og Fjölnir í Kenýu
Störfum og lifum sem kristniboðar í Pokot, Kenýa

Nýjustu myndir

  • Valary að búa til hundamat
  • Við Susan og Davíð við kleinugerð
  • Ég líka.. ég líka
  • Pauline að leika sér að skjóta
  • Pauleine og Charles frá Marakwet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband