Færsluflokkur: Bloggar
Laugardagur, 20. mars 2010
Kanínukaup..
Heil og sæl öll sömul.
Það er orðið rosalega langt síðan ég hef skrifað eitthvað hér... Við erum nýkomin heim aftur eftir 4 vikna dvöl í Nairobi, vegna skólans hans Salómons og ráðstefnu NLM (Norska lúterskakristniboðssins) Og ég segi það satt að það var rosalega gott að koma heim aftur.. Borte bra, menhjemme best!
Í dag gengum við, Salómon, Davíð og Valary (húshjálpin) niður til Makutano sem er um klst. gangur. Tilefnið var að kaupa kanínu fyrir Davíð þar sem hans dó á meðan við vorum í Nairobi. Þetta var fínn túr, en samt skrítið. Við gengum inn á milli húsa og bakleið, þar sem ekki margir hvítir sjást. Alls staðar heyrðum við í krökkum sem kölluðu "wazungo" sem þíðir hvítir. Og einn snáðinn sem við heilsuðum skoðaði hendur sínar vel og lengi eftir að við handheilsuðum, til að athuga hvort hendurnar væru eins á eftir.
Á leiðinni stoppuðum við hjá mági Valary. Hún ætlaði að fá sér að drekka. Okkur var náttúrulega boðið inn og þar fengum við baunir og maiis. Mjög gott. Svo héldum við áfram og fundum kanínusölukonuna. Hún var með nokkrar kanínur og svo nokkra pínuponsu litla sem voru ennþá með lokið augu. Æðislega sætir. Davíð valdi sér eftir mikið om og men eina kanínustelpu (ekki ánægður með kynið...) en eftir að Salómon útskýrði að hann mundi fá marga unga og þar yrðu eflaust líka strákar, gekkst hann með á að taka hana...
Svo röltum við niður í bæ til að kaupa kál fyrir þær og á leiðinni stoppuðum við í búð og fengum okkur ís. Mjög gaman. Þegar við ætluðum að fara heim var svo komin úrhellisrigning og við biðum undir þakskeggi í smá tíma þangað til okkur var boðið inn í sjoppu til að bíða... eftir langan tíma stytti smá upp og við hlupum fyrir hornið til að taka matato (leigubíl) heim. Við komumst inn í einn og eftir að það var búið að troða 9 manns inn í 5 manna bílinn fór hann af stað. Þá hringdi Fjölli sem hafði ekki svarað símanum þegar ég reyndi að ná í hann til að ná í okkur. Hann var á Bendera, sem er staður fyrir ofan okkar lóð, og við fórum úr leigubílnum hjá klæðskeranum "mínum" ég þurfti að ná í blússu og pils sem hann var að sauma á mig. Fjölli kom og tók okkur uppí og á leiðinni heim keypti ég kjöt hjá slátraranum og egg hjá konu sem selur egg og franskar kartöflur...
Þegar við komum heim voru Markús og Kristín Inga að elda. Það hafði verið rafmagnslaust í 5-6 tíma og þau höfðu neyðst til að finna upp á einhverju öðru en tölvu- og eða sjónvarpsglápi. Og úr varð að þau sömdu lag og texta um rafmagnsleysið. Mjög flott hjá þeim!!!
Annars er það að frétta að Davíð er allur að koma til eftir skarlasóttina. Hann er hitalaus og útbrotin eru að hverfa. Guði sé lof! Við hin erum aðeins "horuð" en líka að skána!
Daníel er í Balestrand og líkar vel. Hann er búinn að ákveða að halda áfram þar næsta ár og við erum mjög sæl með það hvað honum líður vel. Hann langar að koma í heimsókn til okkar um páskana og við erum að vinna í að finna miða. Vonandi tekst það því söknuðurinn er mikill á báða vegu
Ég finn að ég þarf að hafa fyrir því að nálægja mig Guð svo hjarta mitt harðni ekki. Ég bið Guð um að blessa okkur öll og mæta okkur þar sem við erum stödd í okkar baráttu. Baráttu á milli góðs og ills. Baráttu á milli þess að gera það sem er rétt eða fara eftir tilfinningunni þá og þegar... já þetta er ekki auðvelt en með Guði er það hægt. "allt megna ég með hjálp Hans sem mig styrkan gjörir" stendur í Orði Guðs og ég trúi því!
Jæja gott fólk. Reyni að skrifa hér aðeins meira reglulega! Endilega sendið mér línu þegar þið eruð búin með allan lesturinn. Það er svo gaman að fá smá viðbrögð :-)
Knús frá Fanney og fjölskyldu!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 5. febrúar 2010
Vá hvað vikan líður hratt...
Er það bara hér eða líður tíminn svona hratt allsstaðar?
Föstudagurinn var hraður að vanda. Ég fór aðeins að versla í Makutano og svo þegar ég kom heim var eldhúsið fullt af konum sem voru að búa til brúðkaupskökur sem verða gefnar á sunnudaginn. Ég var beðin um að segja nokkur orð við brúðhjónin og svo að skera kökuna sem er víst mikið mál hérna... Kornelíus, brúðguminn kom sérstaklega til að biðja mig um þetta. Við konurnar gerðum 8 kökur þar sem 2 voru smá mislukkaðar. En samt góðar og krakkarnir okkar og nágrannana svolgruðu í sig af bestu lyst.
Laugardaginn síðasta fór ég ásamt Kirsten Lundebye og konum héðan til Tartar, sem er staður bara svona 20 mín. héðan. Við fórum rúmlega 2 og þegar við komum þangað var okkur tjáð að fundurinn hefði byrjað kl 10... eins gott að það var ekki ég sem skipulagði þetta.
Við fórum í kirkjuna með konunum sem biðu eftir okkur og þá hófst söngur og vitnisburðir. Það er rosalega gaman að sjá hvað þær hafa hvern hannyrðafund formlegan með Guðsþjónustu fyrst. Ein kona var komin til að segja konunum frá hvað alþingismennirnir væru að ákveða sem varðar konur og eða fjölskyldur. Mjög áhugavert!
Svo var tekið til höndunum og farið að sauma, hekla, prjóna og ég fór að klippa plastpoka sem nota átti í heklaða tösku. Mjög frumlegt, en flott!
Svo á heimleiðinni stoppuðum við í Makutano og fórum út að borða á hótelinu þar ásamt Kirsten. Það er svo gott við þennan stað er að maturinn er mjög ódýr og góður í senn.
Á sunnudeginum var okkur sem sagt boðið í brúðkaup í Leland. Kornelíus og Carolyn, sem að vísu hafa búið saman í nokkur ár, voru að gifta sig formlega. Þetta var mjög skemmtilegt. Mikill söngur og ræðuhöld í kirkjunni og eins eftirá. Kökumálið var aðal skemmtunin eftir kirkjuna. Þá var það Emma (kona skólastjórans og nágranni okkar) sem stjórnaði af mikilli natni og nákvæmni handaþvotti, kökuskurði, og svo brúðhjónunum í því að mata hvort annað og gefa hvort öðru að drekka heilt mjólkurglas. Svaramennirnir sömuleiðis og svo að lokum við Emma. Þetta var rosalega gaman og mikill hlátur. Brúðhjónin fengu svo gjafirnar afhentar og allir í nálægustu fjölskyldum sögðu nokkur orð. Það var gaman að sjá að þau fengu 4 rollur sem voru haldnar í bandi. Þegar brúðurin sá allar gjafirnar, sérstaklega rollurnar held ég, barst hún í grát.
Svo eftir að þetta allt saman fengum við að borða. Það voru hrísgrjón og kjöt. Ekki alveg viss um hvort það var hana eða lamba/geita kjöt.. Og í lokin chai. Ægilega fínt allt saman. Eftir þetta allt saman keyrði Fjölli "nokkrum" aðilum heim og svo lögðum við í hann aftur. Ferðalagið tók einn og hálfan tíma. Kristín Inga og Markús höfðu fórnað sér og voru heima með litlu pjakkana, sem betur fer segi ég, því það er ekkert gaman fyrir þá að bíða og bíða og bíða eftir öllu sem á að gerast.
Og svo var bara ný vika byrjuð.
Mánudagurinn var skóli og svo fórum við Kirsten til konu hérna í Bendera sem á við hættulegan sjúkdóm að stríða og hefur það mjög erfitt. Það er erfitt að sitja og heyra hvað margir hafa það þungt. Hvað getur maður gert?
Þriðjudaginn var skóli og svo skelltum við okkur til Kitale. Jakob kom með og við byrjuðum á að fara út að borða á Indverska / Kínverska veitingastaðnum þar sem við þurfum að bíða að minnsta kosti í einn tíma frá því við pöntum matinn til við fáum hann. En maturinn er ágætur. Svo ætluðum við í sund í Kitale Club, en það var verið að gera við sundlaugina og strákarnir ekki par ánægðir. Ég sagði þeim að við mundum bara kaupa ís og nammi og þá varð allt í lagi. Kitale er ruglingslegur staður finnst mér en ég mun nú örugglega læra á hann með tímanum.
Á miðvikudaginn fórum við Jostein Holmedahl í ELCK kirkjuna hér í Makutano. Þangað koma götustrákarnir á miðvikudags morgnum til að baða sig í ánni og þvo fötin sín. Þeir fá heita máltíð og svo safnast þeir saman í kirkjunn og fá andlega uppbyggingu áður en þeir fara á fótboltavöllinn og spila fótbolta í 2 tíma. Kristín Inga, Markús, Salómon, Davíð Pálmi og Valary (húshjálpin) komu með en ég fór með Valary og Davíð eftir kirkjutímann í Makutano á meðan KI, MVF og SSF spiluðu við guttana. Þau voru alveg hissa á því hvað þeir voru sprækir þrátt fyrir að límflaskan hengi í tönnunum á þeim. Þeir eru svo í öllum sínum fötum og meira að segja ullarpeysunni í 33 stiga hitanum ef þeir eiga hana. Það var gaman að sjá að eftir að hafa hitt strákana og kynnst þeim aðeins þá breyttust samskiptin frá því að vera bara betl í að vera spjall án betls.
Í gær var svo síðasti dagurinn sem Kirsten og Erling voru hér. Mér finnst voða leiðinlegt að sjá eftir sérstaklega henni þar sem við kynntumst ágætlega og leið svo ljómandi vel saman. Erling er líka voða næs, en hann var meira upptekinn. Við Kirsten fórum í heimsóknir til kvenna hér saman og svo voru ófáir kaffibollarnir drukknir og fékk ég mörg ráð frá henni varðandi það að vera kristniboðskona hér. Ómetanlegt! Um kvöldið fórum við svo á bænastund hjá Jostein. Þetta var að venju mjög góður fundur. Jostein talaði um mörg nöfn Guðs, Guð sem skapari, Guð sem frelsari, Guð sem framfærandi og svo framvegis. Ákaflega áhugavert.
Við enduðum kvöldið á því að tala við Daníel í gegnum Skype. Þetta var í fyrsta skipti sem við töluðum við hann svona og það var alveg frábært að heyra aðeins í honum. Hann lætur vel af sér og gengur bara vel í skólanum. Hann hefur eignast vini og það virðist vera það eina sem honum finnst vera ábótavant er maturinn. Brauð brauð og brauð. Gott að finna að honum líði vel.
Í dag var svo skóli og svo var dagurinn frekar afslappaður.Í hádeginu var ég með skyr og rjóma. Mmmmmmmmmm alveg yndislegt! Svo um kvöldið bjuggum við til pizzu á hefðbundinn hátt og strákarnir og KI horfðu á teiknimynd á meðan pizzan var borðuð. Jostein kom í pizzu líka og það var mjög gott að spjalla aðeins við hann líka.
Seint í kvöld komu svo tveir menn.. Geoffry og Kornelius frá Leland. Þeir komu færandi hendi til að þakka fyrir komu okkar í brúðkaupið og kökustússið. Við áttum mjög gott spjall hérna á veröndinni yfir chai og salt hnétum sem ég steikti hérna um daginn.
Guð blessi ykkur og varðveiti!
Fanney
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 28. janúar 2010
Gestagangur
Já það hefur sannarlega verið mikið að gera hér í Kapenguria síðan við fluttum hingað. Við komum hingað á miðvikudegi, strax daginn eftir vorum við á okkar fyrsta bænafundi. Hann var hjá Lundebye og var það mjög góður fundur. Bæði norsarar, íslendingar og kenýumenn.
Frsta laugardaginn var ég beðin um að koma á konufund. Þar átti ég að ávarpa konurnar. Mér fannst þetta vera mikið verkefni og lá við að ég lægi andvaka. En um miðja nótt kom Orðið til mín:
Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir. Filippíbréfið 4:13.
Þetta setti ég svo saman við Andans gjafir í:
Galatabréfinu 6:16-24: Lifið í andanum og þá fullnægið þið alls ekki girnd holdsins. Holdið girnist gegn andanum og andinn gegn holdinu. Þau standa hvort gegn öðru til þess að þið gerið ekki það sem þið viljið. En ef þið leiðist af andanum þá eruð þið ekki undir lögmáli.
Holdsins verk eru augljós: frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur, öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt. Og það segi ég ykkur fyrir, eins og ég hef áður sagt, að þeir sem slíkt gera munu ekki erfa Guðs ríki.
En ávöxtur andans er: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Gegn slíku er lögmálið ekki. En þeir sem trúa á Krist hafa krossfest holdið með ástríðum þess og girndum.
Þetta var bara ágætt og talaði til okkar allra. Eftir andlegu uppbygginguna var matur: hrísgrjón og baunir og svo var haldið áfram með hannyrðir. Þetta var bara mjög gaman.
Þennan sunnudag fórum við í kirkju til Propoi sem er við Chepareria. Strákarnir fóru náttúrulega með okkur og Kristín Inga líka. Þetta var mjög gaman og eftir kirkjuna var öllum heilsað með handabandi og í lokin fengum við Chai með nokkrum útvöldum.
Á miðvikudeginum komu svo fyrstu gestirnir og Sr. Jakob Hjálmarsson sem er hingað komin til að kenna á námskeiði og fleiri verkefni sem ég kann ekki skil á. Mjølhus fjölskyldan keyrði honum uppeftir og fengu þau að gista í hans húsi þessa daga sem þau voru hér. Jakob gisti í Kristínar húsi og hún hjá okkur. Rune og Janne Mjølhus komu með sín börn; Seline, Ruben, Silas og Valentin. Rune var að fara að vinna og komu þau með okkur til skemmtunar. Seline og Ruben voru svo í litla skólanum okkar með Salómoni og Markúsi. Það gekk mjög vel og var bara gaman.
Hér á lóðinni eru líka Erling og Kirsten Lundebye sem eru garfaðir kristniboðar frá Noregi. Við konurnar höfum verið mikið saman, fengið okkur kaffi og með því hjá hvorannari og eins farið á markaðinn í Makutano sem er smákjarni ca 5 km frá.
Rune og Janne fóru á laugardagsmorgun og þá um miðjan dag komu næstu gestirnir. Hellestrae fjölskyldan. Bjørn Ketil og Turid með strákana; Kristian, David og Simon. Þar sem þeir voru ekki með skólaplan var ákveðið að Salómon og Markús fengju frí frá skólanum mánudag og þriðjudag og svo rði unnið hörðum höndum restina af vikunni. Á laugardagskvöldinu komu svo þriðju gestirnir. Randi og Arngeir Mo. Foreldrar Ola Mo sem er í Nairobi á vegum Fredskorpset... Við skelltum okkur út að borða þetta kvöld og var það gert á nýjasta hóteli bæjarins. Það var mjög fínt bara.
Sunnudagsmorguninn kl 06:30 held ég lögðum við af stað til Sekerr, sem er langt uppí fjöllunum hér í Pokot. Þetta var langt og strangt ferðalag, klifur upp snarbratt fjallið á satt best að segja skelfilegum vegi. Við vorum ca 2,5 tíma að kera, en við komumst á leiðarenda og þar var farið í kirkju. Fjölnir fékk einhverja magapest og missti af mest allri kirkjunni en þetta var mjög skemmtilegt að taka þátt í fyrir okkur fullorðnu, kannski svolítið leiðindagjarnt fyrir krakkana, en ....
Eftir 3 tíma langa kirkju fengum við mat og svo var ferðinni haldið heim aftur. Á leiðinni heim sáum við fólk vera að grafa eftir gulli. Það er erfið vinna og gefur ekki mikið. Allt frá 50 500 shillinga á dag. Heimleiðin gekk ágætlega, nema að Fjölnir var svo illt í maganaum að hann gaf allt í botn og það var ekki akkúrat þægilegt á þessum vegum, ef hægt er að kalla vegi. Davíð Pálmi masaði alla leiðina um að hann langaði svo í hund. Ég sagði að það væri nú ekki næst á dagskrá, en hann vildi ekki gefa sig. Svo sagði hann má ég fá hund; segðu já eða nei... og ég sagði, tja ég veit ekki. Ekki núna allavega, en hann gaf sig ekki og krafði mig um svar. Ég sagði þá; fyrst þú segir þetta svona þá verð ég að segja nei. Þá setti hann upp sorgarsvip og spurði. Má ég þá aldrei fá hund? En þegar við flytjum til Kapenguria. Ég sagði honum að við værum nú flutt til Kapenguria. Hann brosti bara og sagðist ætla að fá hund.
Morguninn eftir vaknaði kappinn með þá spurningu hvort hann fengi hund í dag. Ég sagði að það héldi ég nú ekki. Hann varð voða leiður. Svo eftir 1-2 tíma kom hann hlaupandi heim og sagði að nú væri hann búinn að fá hund. Varðhundurinn hefði eignast hvolpa svo nú gæti hann fengið hvolp! Já já... svona geta litlir kappar orðið bænheyrðir. Tíkin eignaðist 9 hvolpa, en 3 létust, og já þeir fá að eiga einn.
Mánudagurinn var notaður til að slappa af. Um eftirmiðdaginn fórum við í göngutúr til Kapenguria. Þar er fangelsi sem er frægt fyrir það að Kenyatta (fyrsti forseti Kenýu) var fangelsaður þar.
Þriðjudagurinn var líka svona slappa af dagur, við Turid fórum á markaðinn í Makutano og keyptum okkur efni til að sauma pils og þessháttar. Hún lét sauma á manninn sinn buxur, ullarbuxur, sem urðu bara mjög fínar. Fjölnir fór til Tamugh í matvæladreyfingu og fóru Randi og Arngeir, Markús, Kristian og Davíð með. Þetta var mikil upplifun fyrir þau öll. Um kvöldið fórum við út að borða á hótelið og svo var farið snemma í háttinn.
Miðvikudagurinn var svo hefðbundinn ef svo er hægt að segja, eftir að hafa búið hér í tvær vikur. En það var byrjað á að kveðja Hellestrae og Mo og svo var farið upp í skóla og tekist á við allt sem átti eftir að gera. Strákarnir voru rosalega vinnusamir og náðu að klára heilmikið.
Í dag var svo klárað næstum allt sem þurfti að gera til þess að morgundagurinn geti verið skemmtilegur. Salómon lagði mikið á sig.. hann reiknaði 11 blaðsíður ásamt því að gera íslensku, ensku og trúabragðafræði. Ekki verst fyrir lítinn pjakk. Markús var líka duglegur. Hann las 42 bls í ensku og reiknaði glás af dæmum. Salómon hljóp svo heim í Wii (leikjatölva) Þegar ég kom heim sá ég að hænurnar voru veikar. Haninn okkar dó í gær ásamt einni hænu þannig að núna þurfum við að slátra öllum hænunum. Valary (húshjálpin mín) fékk að gera það. Mikil sorg á heimilinu. En við fáum okkur nýjar... Kl 15 var svo farið í heimsókn til húshjálparinnar hennar Kristínar Ingu. Hún býr í Bendera sem er þéttbýliskjarni hérna rétt fyrir ofan okkur. Sem betur fer fórum við akandi þar sem þetta var miklu lengra enn við héldum. Þar var tekið höfðingjalega á móti okkur. Hani og hæna í matinn. Kál og kartöfflukássa og súpa. Allt mjög gott. Davíð stóð yfir pottinum og veiddi upp bestu beinin og át og át. Svo var dísætt chai í desert.
Fjölnir var að búa til skyr þegar ég kom heim. Þetta er í annað sinn sem hann reynir við þetta og ég held að honum hafi bara tekist vel upp núna. Bæði skyr og mysa varð til í dag! Geri aðrir betur.
Ég bjó til Nan brauð fyrir okkur að narta í og svo fórum við Fjölnir á bænastund hjá nágrönnum okkar Emmu og Andrew. Góð stund!
Kæru vinir. Þetta önnur vika okkar hér á nýjum slóðum. Við söknum ykkar, en höfum það samt gott.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 13. janúar 2010
Loksins komin heim!
Þá erum við loksins komin heim. Þetta ferðalag er nú búið að taka um 1 1/2 ár. Sjálft ferðalagið frá Nairobi tók ekki nema 8 tíma og að venju voru strákarnir og Kristín Inga rosalega góð á leiðinni. Það var gott að koma hingað, en við erum frekar þreytt svo það var lítið um að pakka öllu upp. Okkur var boðið í mat til Erling og Kjersti Lundeby, sem eru kristinboðar frá Noregi sem hafa starfað sem kristinboðar hér í Kenýu í mörg ár. Erling var líka kennari okkar í Fjellhaug í fyrra.
Jæja, þá er bara að fara að sofa. Á morgun kl 8 byrja ég sem kennari Salómons í litla kringlótta skólanum okkar hér á lóðinni...
Takk fyrir að kommenta á bloggið mitt. Það er svo gaman að sjá að einhver lesi þetta sem ég skrifa.
Guð blessi ykkur öll!
Knús frá Fanney og co.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 12. janúar 2010
Flutningur til Pokot...
Jæja, þá erum við að pakka öllu okkar aftur og á morgun flytjum við til Pokot, Kapenguria. Það er mikil tilhlökkun í okkur öllum. Það er sérstaklega gaman að geta sagt frá því að Markús kemur með okkur. Fyrir jólin leit það út fyrir að hann yrði eftir hér í Nairobi og yrði áfram í West Nairobi School. Sem betur fer fann hann það út, þegar mamman fór til Noregs með frumburðinn, að það væri erfitt að vera frá okkur og að 1/2 ár í heimaskóla væri á sig leggjandi Svo sjáum við til hvað verður áframhald í haust.
Daníel er byrjaður í skóla í Noregi. Nánar tiltekið í Balestrand og skólinn heitir Sygna. Hann er þar á heimavist og leist ljómandi vel á sig þegar við komum uppeftir. Skrítið og mjög erfitt að kveðja hann en við höfum frið fyrir þessari ákvörðun hans. Sygna er NLM skóli og hefur mjög gott orð á sér. Við vonum að þetta gangi vel hjá honum.
Við verðum ekki í miklu tölvusambandi í Kapenguria, en þó einhverju. Ekkert mál að senda tölvupóst, en þá ekki of stóra. Gott ef þið minkið myndirnar áður en þið sendið myndir td.
Guð blessi ykkur kæru vinir!
Knús frá Fanney og co.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 15. desember 2009
Aðventan í Nairobi
Sæl og blessuð kæru lesendur!
Hef fengið ábendingu frá mínum kæra eiginmanni að ég verði að vera duglegri að blogga. Bara stutt ef ég telji að ég hafi ekkert að segja... já ég veit... hann hefur rétt fyrir sér eins og oftast. Hann á vel heima hér í karlasamfélaginu í Nairobi, og ekki skánar það þegar við flytjum uppeftir.
Við erum komin með plan varðandi strákana.
- Daníel er að fara í heimavistarskóla í Sygna í Noregi. Ég mun fara með honum á áfangastað. Bara svona til að sjá aðstæður og sýna mig... og auðvitað til að fara með litla pjakknum mínum alla þessa leið
- Markús verður hér á lópinni, hjá konu sem heitir Turid Amenya. Hún er hér vegna skóla stráka sinna, en maðurinn hennar býr og starfar í Mombasa. Ekki ákjósanlegasta staða, en engu að síður nauðsynleg þar sem það er ekki boðið uppá heimavist hérna.
- Salómon verður í NCS (norska skólanum hér á lóðinni) og þegar við förum til Pokot munum við Kristín Inga kenna honum. Við erum henni og Guði mjög þakklát fyrir starf hennar hér því ég mundi ekki bjóða í að eiga að annast kennsluna sjálf... sorrý..
Ég mun svo vegna skólamála Salómons og Markúsar koma til Nairobi og dvelja þar í 2-3 vikur á tveggja mánaða fresti ca..
Annars er aðventan bara góð. Við erum búin að baka 5 sortir, en allt er að verða búið. Mamma mundi nú ekki hafa gert þetta svona í denn.. þá var ekki leyfilegt að smakka fyrr en á jólunum. Engin miskunn! Hef samt heyrt að ung dama, ca 2 ára hafi einu sinni gert sér ferð upp á efri skáp í eldhúsinu, þegar mamman svaf út eina helgina, og fengið sér að smakka og auðvitað deilt með eldri bróður sínum sem þorði ekki fyrir sitt litla líf að fara hærra enn upp á kollinn....
Við erum búin að skreyta húsið með blikkandi ljósum, englum og kertum og miðað við að hér sé enginn snjór og um 25 stiga hiti þá er stemmingin mjög góð.
Kæru vinir:
Gleðileg Jól og farsælt komandi ár.
Megi Guð vera ykkar helsti vinur og samband ykkar kærleiksríkt og náið.
Við þökkum ykkur fyrir samveruna
og samskiptin á árinu.
Knús frá Fjölni, Fanney, strákunum okkar og auðvitað Kristínu Ingu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 9. desember 2009
Sundlaugapartý
Smá fréttir:
Salómon Sandel er í sínu fyrsta sundlaugapartý. Það er boðið upp á bíómynd á tjaldi, nammiát og svo á að gista í tjöldum. Markúsi fannst þetta hljóma mjööög spennandi og fékk að vera með. Gaman fyrir hann því það er einn vinur hans sem er í 7. bekk sem var í þessum hóp líka. Svo er bara að sjá til sá stutti haldi út og þori að gista þegar allt kemur til alls...
Við hin sitjum heima í blikkandi jólaljósum og hlustum á Írisi Lind Verudóttur. Fjölli var að koma heim af dans- og söng æfingu. Hann þarf að míma þar sem hann kann ekki sönginn. Strákarnir á lóðinni ætla að flytja Turid (sem verður 40. á morgun) atriði sem þeir voru að æfa.Ég hlakka til að sjá þetta!
Annars erum við bara í skólanum á hverjum degi, klárum þann 18. og þá er komið jólafrí og þannig fyrir okkur öll. Daníel ætlar að vera í Mombasa um jólin með TeFT krökkunum frá Noregi. Við hin ætlum bara að njóta lífsins hér og hugsanlega fara í heimsókn á barnaheimilið sem Þórunn er með. Okkur hlakkar til!
Bless í bili og Guð blessi ykkur. Leitið Guðs með allt ykkar, hvor sem það er gleði, sorg eða hvaðeina. Biðjum fyrir hvort öðru!
knús frá Fanney
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 9. desember 2009
Matvæladreifing í Chepkopegh og Sarmach
Matvæladreifing í Chepkopegh og Sarmach
Ég hugsa ekki um það.
Fimmtudaginn 26 nóvember fórum ég og Daníel til Pókot. Tilgangurinn var að yfirfara bókhaldið fyrir neyðaraðstoðina og að fylgjast með tveimur matvæladreifingum. Daníel hafði ákveðið að vera saman með hóp af nemendum frá Noregi sem eru staddir í Pókot þessar vikurnar. Hópurinn gengur undir nafninu TEFT. Ég ákvað hinsvegar að skipuleggja tvær ferðir niður á slétturnar, til að fylgjast með matvæladreifingunni. Eftir samtal við þau sem eru ábyrg fyrir matvæladreifingunni var ákveðið að ég myndi fara til Chepkopegh daginn eftir. Það var ákveðið að ég skyldi keyra saman með bílstjóranum, Jósef, sem færi með maísinn og baunirnar til Chepkopegh. Við lögðum af stað um 10 leytið um morguninn. Við stoppuðum í bænum Chepareria sem er á leiðinni og tókum Samuel Powon með okkur, hann er ábyrgur fyrir matvæladreifingunni á þessu svæði. Margir voru komnir á svæðið þegar við komum. Ég fylgdist með dreifingunni og ákvað að ræða við nokkra skjólstæðinga. Mig langaði spyrja þá nokkurra spurninga. Ég byrjaði á að ræða við Paulina Kapelin, 39 ára. Hún á 6 börn, einn strák og fimm stelpur. Af dýrum á hún 2 nautgripi og 5 geitur. Hún á einnig akur upp á 5 ekrur, en uppskeran eyðilagðist í ár vegna þurrka. Þegar maðurinn hennar lifði áttu þau í kringum 30 dýr. Í síðasta mánuði fékk hún útdeilt 30 kg af maís en engar baunir. Núna fékk hún 30 kg af maís og 3 kg af baunum. Hún er meðlimur í lútersku kirkjunni á þessu svæði. Eiginmaðurinn dó fyrir 9 árum. Núna býr hún ein með fimm af börnunum, eitt er farið að heiman. Elsta barnið er í kringum 20 ára en það síðasta 6 ára. Mér brá aðeins við þessar upplýsingar og spurði hver væri faðir yngsta barnsins. Hún sagði að faðir tveggja yngstu barnanna væri bróðir látins eiginmanns hennar. Ég spurði hvort hann styddi hana og börnin en hún sagði að það gerði hann ekki. Ég spurði þá hvað henni þætti um þetta. "Ég hugsa ekki um það", svaraði hún. Hún telur að maturinn sem hún fékk núna muni duga í kringum tvær vikur.
Nicola Lönyakow er 30 ára og á eina konu og fjögur börn. Konan er reyndar ólétt núna. Börnin eru á aldrinum 2 - 10 ára. Hann og fjölskyldan búa hjá foreldrum hennar. Hann á 3 nautgripi, 5 rollur og 10 geitur. Hann á einnig 7 ekrur af ökrum. Öll fjölskyldan er hefðbundnar afrískrar trúar. Hann telur að maísinn og baunirnar endist í eina og hálfa viku. Hann fær stundum vinnu við að brenna kol. Þegar það gerist hjálpar það fjölskyldunni til að kaupa mat. Þau borða tvisvar á dag ef þau geta. Hann sagði að konan og börnin þurfi að fara 2 km til að ná í vatn. Ég spurði hvort þau hefðu getað borðað alla dagana síðasta hálfa mánuðinn, hann svaraði að svo væri ekki. Hann sagði að matargjöfinn hjálpaði mikið og hann teldi að þeir sem verst væru staddir væru þeir sem fengu hjálp.
Joyce Ngoyiakapel, veit ekki hvað hún er gömul. Eiginmaðurinn dó fyrir þremur árum. Hún á 6 börn, 2 stelpur og 4 stráka. Börnin eru á aldrinum 5 - 25, elsta barnið á eitt barn. Öll börnin og barnabarnið búa hjá henni, barnabarnið var getið í lausaleik. Hún á 2 nautgripi, 4 geitur og 10 kindur. Hún á akur sem er 5 ekrur. Uppskeran eyðilagðist í ár. Hún er í Lútersku kirkjunni. Hún telur að maturinn endist í tvær vikur. Ég spurði hana hvort hún teldi að þeir verst stöddu væru að fá hjálp. Hún svaraði því játandi. Ég spurði þá hvort það væri eitthvað sem hún vildi segja að lokum. "Það eru miklu fleiri sem þurfa hjálp en fá hana ekki".
Nú var búið að dreifa öllum maísinum og baununum. Mér var boðið að segja nokkur orð að lokum. Ég þakkaði fyrir tækifærið til að geta hitt þá sem fá aðstoðina og að geta fylgst með matvæladreifingunni. Ég sagði að ég væri þarna staddur fyrir hönd, Íslenska Utanríkisráðuneytisins, Sambands Íslenskra Kristniboðsfélaga, Norska Lúterska Kristniboðssambandsins, Hjálparstarfs Norsku Kirkjunnar og nokkurra einstaklinga sem gefið hafa pening í þetta verkefni. Ég sagði einnig að við sem værum að deila út mat þarna í dag, hefðum fengið innsýn inn í hve lífið er erfitt á sléttunum í Pókot núna. Við vitum að mun fleiri þurfa aðstoð. En þetta er það sem við getum gert í dag og erum við þakklát fyrir það. Ég sagði að það væri erfitt starf sem þorpsnefndin á staðnum hefði unnið þegar hún valdi út hverjir fá hjálp og hverjir ekki. En við værum þeim mjög þakklát. Einnig get ég ekki séð annað en að öll framkvæmd á því að velja hverjir þurfa hjálp og útdeilingin á matvælum gangi mjög vel fyrir sig. Eftir þetta keyrðum við heim á leið.
Bardagar, fjölkvæni og eitruð ber.
Laugardagsmorgun kl. 7:30 lögðum við Jósef af stað til Sarmach. Við tókum Thomas Lokorii uppí í Ortum, hann er eftirlitsaðili fyrir Sigor svæðið. Ég spurði hvort hann vissi nokkuð um barnið hennar Milku Justus (Sú sem dó í fæðingunni). Hann sagði að það væri hjá ömmu sinni og vegnaði ágætlega, en það væri samt lítið. Ég sagði að ég hefði tekið myndir af Milku áður en hún fór á sjúkrahúsið og ég velti fyrir mér hvort ég ætti að gefa barninu þær. Hann sagði að það væri ekki gott að koma með það til ömmunnar núna. Hún myndi bara fara að hágráta. Það myndi bara ýfa upp minningar, hún væri að reyna að gleyma núna. Ég sagði að ég myndi þá bíða með það. Hann sagði að ef ég vildi hjálpa barninu þá væri best að fara á staðinn og skoða hvað það vantaði.
Þegar við komum til Sarmach voru ekki allir skjólstæðingarnir komnir. Ég gaf mig á tal við mann sem stóð nálægt mér og í ljós kom að hann var yfir lögreglunni á staðnum. Hann heitir Samson K. Maiyo og á 3 stráka og eina stelpu. Hann er liðþjálfi og hefur starfað fyrir lögregluna í 28 ár. Hann kom til Pókot í febrúar. Hann starfar fyrir AP (Administration Police) og þar eru lögreglumenn fluttir á milli staða á þriggja mánaða fresti. Hann sagði að það væri gert til að koma í veg fyrir spillingu og að menn misnotuðu vald sitt. Hann vinnur í 3 vikur samfellt og fær eina viku frí. Ég spurði hvort þetta væri hættulegt svæði sem við værum á núna. Hann svaraði því játandi og að njósnarar frá lögreglunni hefðu upplýsingar um að Turkanamenn ætluðu að gera árás á næstunni, á tvo til þrjá bæi, þar á meðal þessa stöð. Turkana er svæði sem liggur að Pókotsvæðinu og þar býr Turkanaþjóðflokkurinn. Pókotþjóðflokkurinn og Turkanaþjóðflokkurinn hafa í gegnum tíðina stolið nautgripum hvor af öðrum. Þetta hefur valdið mörgum bardögum og harmleikum. Turkanamenn hafa gert fjórar árásir síðan Samson kom til Pókot. Hann sagði að einn lögreglumaður hafi dáið í átökum á þessu tímabili. Það var reyndar þegar Pókotmenn gerðu áras. Í síðustu viku gerðu Turkanamenn áras og þá særðust tveir heimavarnaliðar. Heimavarnaliðar eru heimamenn sem fá vopn og smá þjálfun, en þeir fá ekki borgað. Samson er með 6 lögreglumenn á sínu valdi og 12 heimavarnaliða. Annar þeirra sem særðist er alvarlega slasaður. Hann sagði að Turkanamenn væru með AK47 hríðskotabyssur, sem þeir fá frá Uganda. Fyrr í þessum mánuði drápu Turkanamenn einn Pókotmann og stálu 3000 nautgripum. Ég spurði hvað hann teldi vera mest ábatavant á þessu svæði. Hann sagði að það væri stjórnunin. Ef það væri meira um fundi á milli Turkanaþjóðflokksins og Pókotþjóðflokksins myndi ekki vera svona margir bardagar. Hann meinar að stjórnendur þurfa að vera virkari. Nú var kallað á Samson og hann gekk í burt. Ég talaði við Jósef á meðan. Þegar Samson kom aftur sagði hann að heimavarnaliðið hefði rekist á slóð eftir Turkanamenn á svæðinu. Þetta væru eflaust njósnarar frá þeim. Hann sagði að heimavarnaliðið þekktu slóðirnar eftir Turkanamenn á því að þeir byggju til öðruvísi skó. Ég spurði hvort við værum í hættu, en hann sagði að svo væri ekki. Ég hafði séð eina múslímska konu á svæðinu og spurði hvort það væru margir múslimar hér. Hann svaraði því neitandi, hún væri kona eins lögreglumannsins. Ég spurði hverrar trúar hann væri. Hann svaraði, "ég er kristinn" og tilheyri Africa Inland Church.
Nú var allt tilbúið til að dreifa matvælunum og Thomas byrjaður að tala við skjólstæðingana. Við hættum að tala saman og ég fylgdist með byrjuninni á matvæladreifingunni. Síðan spurði ég nokkra af skjólstæðingunum hvort þeim væri sama um að ég tæki mynd af þeim og spyrði nokkurra spurninga.
Ég byrjaði á að tala við Chepaitoy Bilaiker, hún heldur að hún sé í kringum 65 ára. Hún á einn strák og eina stelpu. Eiginmaðurinn dó fyrir 3 árum. Þau búa þrjú saman á heimilinu. Hún á 5 nautgripi, og 10 geitur en engan akur. Hún tilheyrir Lútersku kirkjunni. Heimilið hennar er að fá mat í fyrsta skipti núna, 20 kg af maís og 2 kg af baunum. Hún telur að maturinn endist í eina viku.
Nguratolim Korlau, er í kringum 70 ára. Hann á eina eiginkonu, einn strák og eina stelpu. Hann á 15 nautgripi en engan akur. Hann er hefðbundnar afrískrar trúar. Hans heimili fékk 20 kg af maís og 2 kg af baunum. Hann telur að maturinn endist í 5 daga. Hann segir að þessi þurrkur sé sá versti sem hann muni eftir í sínu lífi. Ég spurði hvort hann æti berin af trénu sem við stóðum undir. Hann svaraði að í fortíðinni hefði það verið allt í lagi. Þau þurfa reyndar að sjóða þau í 10 klst., vegna þess að þau eru eitruð. Ef þau eru borðuð hrá getur fólk dáið. En núna þegar þau sjóða þau í 10 klst. og borða, fá þau niðurgang af þeim. Ég spurði hvort hann drykki blóðið úr nautgripunum, ég veit að fólk úr sumum þjóðflokkum í Kenýa gera það. Hann sagði að þeir gerðu það ef það væri nóg af grasi og vatni. En núna er svo lítið blóð í gripunum að þeir myndu deyja ef þeir tækju blóð úr þeim. Þeir gera það með því að stinga á æð í hálsinum og láta blóðið renna. Sárið lokast síðan og hægt er að gera þetta aftur seinna.
Chepolopkyun Abukot, er í kringum 80 ára. Hún á tvær stelpur og einn strák. Eiginmaðurinn er dáinn. Þau búa fjögur saman. Hún á 4 geitur, það er allt og sumt. Það er búið að stela öllum nautgripunum. Hún er kristinn (Reformed). Hún telur að maturinn endist í 10 daga. Hún segist vera glöð núna yfir að hafa einhvern mat. Hún hefur verið veik síðustu 5 mánuðina. Ég heyrði að hún hóstaði og það hljómaði ekki vel.
Cheposo Lemungole, veit ekki hvað hún er gömul. Hún á sex stelpur. Eiginmaðurinn er gamall, um áttrætt. Hann átti aðra konu sem er dáin núna. Sú kona var um 65 ára þegar hún dó árið 1991. Sú kona átti tvær stelpur og tvo stráka. Núna búa þau 10 á heimilinu hennar. Ég spurði hvernig sambúðin við fyrstu eiginkonuna hefði gengið. Hún svaraði að hún hefði gengið mjög friðsamlega fyrir sig. Það stóð yngri kona við hliðina á henni og ég spurði hver hún væri. Hún svaraði að hún væri dóttir fyrri konunnar. Hún heitir Cheposekek John. Hún á 3 stráka og 5 stelpur. Cheposo sagði að hún væri hefðbundnar afrískrar trúar. Hún á enga nautgripi, þeir hafa allir dáið í þurrkinum. Hún grefur eftir gulli til að fá einhvern pening fyrir mat. Hún átti eitt barnabarn, en það dó í einni áras Turkanamanna. Þegar ég spurði hvort það væri eitthvað sem hún vildi segja að lokum, svaraði hún, "Komið með kirkjuna hingað".
Við lukum við matardreifinguna og lögðum af stað heim á leið. Jósef og Thomas ákváðu að keyra aðeins inn á Turkanasvæðið. Þar keyptum við okkur mat. Ég sá að hendurnar skulfu aðeins þegar ég byrjaði að borða, mundi þá eftir að ég hafði borðað frekar lítið síðustu daga. Eftir matinn keyrðum við heim. Við komum til Kapenguria um sex leytið. Ég fékk mér eina kók og fór síðan að sofa. Ég var útkeyrður, í orðsins fyllstu merkingu, og með hitakastaeinkenni þegar ég fór að sofa. Það hafði verið heitt á sléttunni og smá vindur. Eitt af því síðasta sem ég hugsaði áður en ég sofnaði var að ég yrði að muna eftir að hafa derhúfu eða hatt með mér næst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 30. nóvember 2009
...og hvað gerði ég um helgina??
Ég gleymdi alveg að segja ykkur hvað ég var að sýsla á meðan bóndinn og frumburðurinn voru í Pokot. Á laugardaginn var svona fjáröflun á vegum norrænu þjóðanna hér í Nairobi. Á okkar "stand" var auðvitað risastór íslenskur fáni sem Kristín Inga hefur hangadi uppi vegg heima hjá sér. Við seldum jólagraut, vöfflur, jólakökur, kerti og alls konar fallega muni og svo var lotteri - allt til styrktar krakka í fátækrahverfi hér í Nairobi.
Á sunnudaginn var svo aðventu Guðsþjónusta og þar var ég stjórnandi og í kórnum.. það var rosalega gaman fannst mér.. Torvald, ef þú ert að lesa þetta þá sársá ég eftir að hafa ekki tekið boði þínu um að koma í kór Egilsstaðakirkju. Þetta er bara rosalega gaman! Sem betur fer eigum við að syngja líka í aðfangadagsmessunni hér á lóðinni.Hlakka til! Eftir messuna var svo kaffi og kökur sem bæði við og einhverjir af þeim sem komu höfðu með. Það komu fullt af okkar norrænu "vinum" hér í Nairobi.
Seinna um daginn fórum við Salómon og Davíð í heimsókn til Mo fjölskyldunnar sem er hér á vegum norsku friðarsveitarinnar. Yndisleg hjón með 3 stráka. Þar vorum við í góðu yfirlæti þar til það var kominn tími til að fara í gönguferðina sem er alltaf á miðviku- og sunnudögum. Við vorum 7 konur sem gengum, mishratt, írúmann klukkutíma. Mjög hressandi.
Þá eruð þið líka komin með mína helgi.
Sálmarnir 103:8
Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 30. nóvember 2009
Langt síðan síðast...
Það líður eitthvað svo langt á milli bloggsins hjá mér núna... veit ekki hvort það sé skriftfælni eða bara að það sé mikið að gera eða að mér finnist ekki vera neitt fréttnæmt. Það síðasta væri nú lygi þar sem við erum í alveg nýju landi, nýrri heimsálfu meira að segja og allt er fréttnæmt eiginlega.
Okkur gengur vel með okkar fyrstu skref hér... Daníel er ennþá að skoða sín skólamál. Hann langar að fara í heimavistarskóla í Noregi og okkur líkar það ágætlega. Honum gengur vel í skólanum sem hann er í og er nýkominn heim frá Pokot. Þar var hann með TeFT krökkunum í Chesta og kom heim hlaðinn munum frá Pokot. Það sem okkur þótti merkilegast var kannski umskurnarhnífur....
Markús er bara mjög hress. Hann er búinn að kynnast nágrannastráknum hér og þeir leika sér saman alla frítíma. Hann er að hugsa um að verða eftir hér á lóðinni eftir áramót. Halda áfram í West Nairobi School og eiga heima hjá konu hér á lóðinni sem á tvo stráka. Hún dvelur hér afþví að hennar strákar eru í skólum hér og þar sem það er ekki boðið uppá heimavist valdi hún að flytja frá Mombasa þar sem hún og maðurinn hennar búa og dvelja hér á meðan skólinn er. Þetta er fallega boðið af henni finnst okkur og við erum að hugsa um að þiggja það.
Salómon verður áfram á NCS sem er norski skólinn hér á lóðinni. Hann kemur auðvitað með okkur til Pokot og svo fer ég til Nairobi með hann í 14 vikur á ári. Svo frá og með haustinu kemur kennari til okkar hluta af árinu.
Davíð Pálmi er rosalega ánægður hér á lóðinni. Hann sést varla án kameljóns og allir eru farnir að spyrja hann hvort hann sé ekki með kameljón með sér... annað hvort það eða froskar. Hann er að verða eins og Dagfinnur dýralæknir.
Fjölli kom frá Pokot í gær og var hann þá afmyndaður hægra meginn í andlitinu. Væntanlega hefur hann verið bitinn af einhverskonar skordýri. Hann er með sár undir eyranu og er mjöööög bólginn. Það er ekki oft sem hann tekur verkjatöflur, en hann gerði það eftir að hann kom heim. Bæði þreyttur eftir ferðina og alveg stífur og með verki í hálsi og hliðinni...
Kæru vinir. Guð blessi ykkur og varðveiti!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Tenglar
Mínir tenglar
- Fjellhaug skoler Heimasíða skólans sem við erum í
- Veðrið í Osló...
Bloggvinir
- Anna systir Anna Björg og fjölskylda í Mosó...
- Álfheiðurin mín á Eyjó Hvað get ég sagt ??
- Guðrún mákona Guðrún og Óskar bróðir í Búðardal
- Súsý frænka
- Dandý á Egilsstöðum Mamma Söndru mm...
Af mbl.is
Innlent
- Veltir deilumálinu fyrir sér
- 760 manns eru í vinnu í Grindavík
- Vegir lokaðir og margir á óvissustigi
- Fagnar brú sem hann áður gagnrýndi
- Andlát: Þórhallur Ásmundsson
- Lögregla kölluð til vegna ágreinings um bifreiðakaup
- Lögregla veitti ökumanni eftirför í miðbænum
- Ferðalöngum ráðlagt að kanna aðstæður
- Gullhúðun stöðvar Hvammsvirkjun
- Allt hveiti er nú innflutt